Skoðun

Hvert viljum við stefna?

Birna Þorsteinsdóttir skrifar
Frá 1990 hefur kúabúum fækkað um eitt þúsund, bara á síðasta ári hættu 40 kúabændur störfum hér á landi og er það í takt við þróun greinarinnar síðustu áratugi. Virk kúabú eru nú 596, en þessi þróun eða öðru nafni hagræðing er vegna tæknibyltingar og ytri krafna um stöðugt hagstæðara verð á mjólkurvörum. En er staðan betri en hún var? Hefur tilganginum verið náð? Hvert viljum við stefna?

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi í mjólkurframleiðslu á umliðnum árum. Bændur hafa með markvissum hætti hagrætt með samstarfi og samvinnu. Framleiðslustöðvum fyrir mjólk hefur verið fækkað úr 19 í 5 og þær verið sérhæfðar, allt til að ná niður kostnaði. Það er óumdeilt að neytendur hafa notið meginpartsins af þessum aðgerðum eða 2/3 af hagræðingunni, meðan bændur hafa fengið 1/3.

Meðalmjólkurkýrin framleiðir 60% meira en fyrir þrjátíu árum. Meðalkúabú á Íslandi framleiðir um 250 þúsund lítra af mjólk á ári, það hefði þótt risabú fyrir 30 árum. Starfsfólki við mjólkurvinnslu hefur fækkað um rúm 30% á sama tíma, en hefur aldrei áður unnið úr meiri mjólk en gert var á síðasta ári. Þá hefur orðið ótrúleg framleiðniaukning bæði á meðal mjólkurframleiðenda og í afurðavinnslum þeirra.

Bændur eru tilbúnir í samtal um sitt starfs­umhverfi hvar og hvenær sem er, þeir vilja vinna í sátt við samfélagið og umhverfið. Mjólkurframleiðslu á Íslandi er sniðinn ákveðinn rammi sem er að mörgu leyti sérstakur en með honum var lagt í ákveðna vegferð sem hefur í meginatriðum gengið eftir eins og til var ætlast, hagræðingu var náð og neytendur njóta hennar.

En viljum við fara í róttækar breytingar án þess að vita hver endanleg niðurstaða verður? Landbúnaður á Íslandi er hluti af okkar þjóðarvitund og samofinn okkar menningu – hann er hluti af stærri heild. Hvernig samfélagi viljum við stefna að? Hvað viljum við sjá í sveitum landsins og hvernig viljum við byggja landið? Að kollvarpa núverandi fyrirkomulagi gæti kostað okkur meira en virðist við fyrstu sýn.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×