Skoðun

Með hamarinn á lofti

Jakob Eiríksson Schram skrifar
Í Vöku látum við verkin tala. Eftir margra ára baráttu náðist í gegn að hafa endurtökupróf í janúar.

Það var nauðsynlegt skref í réttindabaráttu nemenda. Á verkfræði- og nátturúvísindasviði eru flest próf þung lokapróf sem vega 70 – 100% af lokaeinkunn, því gat verið dýrkeypt að falla í desember og taka prófið í maí, þegar heil önn af öðru námsefni hefur liðið á milli prófanna.

Efnið er ennþá ferskt í minni í janúar, og því þarf ekki að læra það upp á nýtt. Það er einungis nauðsynlegt að betrumbæta þá þekkingu sem brast í desemberprófinu. Pússa þekkinguna til og sparsla í holurnar. Einning losnar nemandinn við stressið sem fylgir því að hafa auka lokapróf hangandi yfir sér yfir alla önnina, þar sem það er nóg af nýju námsefni á önninni án þess að gamla efnið hangi yfir þér.

Þó jólin verði skemmri, þá er það verðugur fórnarkostnaður þegar litið er heildrænt á málið. Ég fór kannski minna á jólaböllin, og fékk mér minna hangikjöt en í staðinn þá er stressið minna og vigtin ber léttari byrði.

Enginn verður smiður við fyrsta högg, og í þessari fyrstu atrennu mátti sumt fara betur. Það hefðu t.d. mátt vera fleiri dagar á milli prófa, meira tillit tekið til erfiðari áfanga og nemendur látnir vita fyrr hvenær endurtökuprófin færu fram. Yfir heildina voru nemendur ánægðir með þessa skipan mála.

Það er betra að hafa endurtökuprófin í janúar, það er ekki spurning.

Næsta skref er að negla niður endurtökuprófin og sjá til þess að þau verði varanlega í janúar. Það eru vankantar en þá má saga af. Í Vöku munum við berjast fyrir því að svo verði. Við mundum hamarinn, látum verkin tala og linnum ekki látum fyrr en naglinn hefur verið rekinn á kaf.

Verkfræði og náttúruvísindasvið er bara upphafið, við viljum að þessi skipan standi til boða í öllum faggreinum háskólans. Þá fyrst leggjum við hamarinn niður.


Tengdar fréttir

En ég vil ekki verða fræðimaður

Eitt sinn hafði ég orð á því við kennara að áfanginn sem ég sat í tengdist á engan hátt neinu sem hægt væri að kalla raunveruleika.

Ég hefði getað drepið einhvern

Hjartað mitt tók stóran kipp er ég uppgötvaði að ég hafði gefið sjúklingnum röng lyf. Mér leið eins og að ég væri komin með óhreint sakavottorð. Eins og glæpamaður á flótta.




Skoðun

Sjá meira


×