Lífið

Ætti að selja inn á malbikunarvélar

Vera Einarsdóttir skrifar
Sváfnir steig upp úr skrifstofustólnum og rifjaði upp kynnin við malbiksvinnuna fyrir nokkrum árum. "Ég datt strax í gamla gírinn."
Sváfnir steig upp úr skrifstofustólnum og rifjaði upp kynnin við malbiksvinnuna fyrir nokkrum árum. "Ég datt strax í gamla gírinn." MYND/EYÞÓR
Sváfnir Sigurðarson gaf út sína fyrstu sólóplötu um miðjan desember á síðasta ári. Hún ber nafnið Loforð um nýjan dag og var valin plata vikunnar á Rás 2 í upphafi árs. Á plötunni er að finna lagið Malbiksvísur sem fjallar um frelsistilfinninguna sem höfundur upplifði í malbikunarvinnu á yngri árum. Svo virðist sem margir tengi við lagið en það hefur átt sæti á vinsældarlista Rásar 2 síðustu fjórar vikur.

Áramótin 2015/2016 strengdi Sváfnir þess heit að gefa út sólóplötu áður en árið rynni sitt skeið. Það hafðist en hún kom út um miðjan desember á síðasta ári. Sváfnir hefur fengist við að syngja og semja um langt skeið en á plötunni er eingöngu að finna lög sem hann samdi á síðasta ári. „Ég var ekkert að fara í hvelfinguna sem ég á eins og Prince heldur var allt samið í fyrra. Þetta er því ágætis vitnisburður um árið.“

Eitt lagið á plötunni heitir Malbiksvísur. Það vakti eftirtekt hlustenda en í texta sem fylgir laginu segir: „Líklega eina íslenska popplagið sem fjallar af raunsæi um þrá mannsins til að leggja malbik og þá altumlykjandi frelsistilfinningu sem hríslast um 19 ára pilt sem stendur á fallegum sumardegi uppi á malbikunarvél og horfir á sköpunarverk sitt liðast kolsvart og rjúkandi út í daginn.“

Óvenjulegt yrkisefni

En af hverju skyldi einmitt það lag hafa fengið slíkan byr? „Við veðjuðum svolítið á það í upphafi enda kannski um óvenjulegt yrkisefni að ræða. Það hefur reyndar verið sungið um fisk og fiskvinnslu og allir þekkja Hrognin eru að koma og Ísbjarnarblús með Bubba. En hvers vegna stígur ekki reiður smiður eða úrillur verkfræðingur fram og semur lag? Hvar eru iðnaðarmenn þessa lands,“ spyr Sváfnir og skellir upp úr.

Sváfnir hefur áður komið að útgáfu tveggja platna. Önnur var með Mönnum ársins 2008, hin með hljómsveitinni Kol 1994. „Þá var mér svo mikið í mun að vera alvarlegur listamaður að það var ekkert rúm fyrir eitthvað sem heitið gæti húmor eða kímni. Ég hef hins vegar náð að hrista það af mér á þessum tuttugu og eitthvað árum sem liðin eru,“ segir Sváfnir, en Malbiksvísurnar eru óneitanlega uppfullar af kímni í bland við heillandi æskuljóma og fortíðarþrá.

Eins og kemur fram í laginu fann Sváfnir frelsið uppi á malbikunarvél. Með vind í hárinu á miðjum Víðimel hefur honum aldrei, ef marka má textann, liðið jafn vel. Honum bregður svo fyrir á kontórnum mörgum árum síðar. Hann hugsar til malbiksáranna, fyllist fortíðarþrá og rýkur út til að malbika.

En var þetta í alvöru svona dásamlegt?

„Já þetta var skemmtilegur tími. Við vorum í þessu frændur og bræður nokkur sumur. Þetta tók á og þurfti að gerast hratt. Maður fann virkilega til sín og mér fannst þetta merkilegt starf. Það er líka ólýsanleg tilfinning að standa uppi á malbikunarvél á fallegum sumardegi og horfa á listaverkið sem maður er búinn að leggja taka á sig mynd og verða að þessum fallega sorta. Að mínu mati ættu allir að hafa tækifæri til að prófa. Það ætti hreinlega að selja inn á malbikunarvélar á sumrin,“ segir hann og hlær.

En gætir þú raunverulega hugsað þér að gefa skrifstofustarfið upp á bátinn og hella þér út í malbikið?

Hér eru Sváfnir og félagar á malbiksárunum. "Hitinn frá sól og malbiki gerir það að verkum að menn eru gjarnan berir að ofan við vinnuna. Það er líka bara svo kúl," segir Sváfnir og hlær.
Datt í gamla gírinn

„Já, hver veit. Ég var reyndar kallaður til fyrir nokkrum árum. Ég sló til og datt strax í gamla gírinn. Það fylgir þessu hins vegar ákveðinn veruleiki sem er kannski ekki alltaf mjög skynsamlegur. Yfirleitt er reynt að malbika á góðviðrisdögum og erfitt að vera í miklu yfir sér. Þá er ráð að nota sólarvörn en þegar ég ætlaði að fara að taka upp brúsann sat ég undir ákúrum fyrir aumingjaskap. Ég henti honum því aftur í pokann og tók á móti heilum degi án varnar. Ég lá svo bara í rúminu í tvo daga á eftir.“

Sváfnir segir reyndar víða fært í stílinn í textanum til að þjóna rími. Lagið byrjar til að mynda svona: Sumarið nítíu-og-eitt (það var í meðallagi heitt). „Í sannleika sagt held ég að ég hafi ekkert malbikað þetta sumar og kom aldrei nálægt Víðmel, eins og segir á öðrum stað. Ég á hins vegar heiðurinn af löngum kafla við Hafnargötuna í Keflavík.“

Loforð um nýjan dag hefur í heild fengið góðar viðtökur. Platan er sögð einlæg og sjálfur hefur Sváfnir lýst tónlistinni sem miðaldra melódramatík. Aðspurður segist hann eflaust opinbera sig eitthvað. „Skapti Þóroddsson sem hljóðblandaði lögin og sat með þeim í heila viku sagðist í það minnsta þekkja mig betur á eftir.“ Sváfnir segist þó hafa rennt svolítið blint í sjóinn en er sáttur. „Ég hef fengið góð viðbrögð og ótrúlegt en satt ekki bara frá fólki sem þarf að búa með mér eða hitta mig á ættarmótum.“ Spurður hvort framhald verði á sólóferlinum segist hann ekki búast við að það verði á þessu ári. „En klárlega 2018. Þá kemur næsta plata.“

Sváfnir heldur útgáfutónleika í Gamla bíói fimmtudaginn 9. febrúar næstkomandi. Þeir bera yfirskriftina Sváfnir Sig og drengirnir af upptökuheimilinu og hefjast klukkan 20.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×