Viðskipti erlent

Volkswagen mun játa sök í stóra útblástursmálinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Volkswagen hefur staðið í ströngu undanfarna mánuði.
Volkswagen hefur staðið í ströngu undanfarna mánuði. Vísir/AFP
Bílaframleiðandinn Volkswagen mun játa sök í stóra útblástursmálinu þegar mál bandaríska ríkisins gegn bílaframleiðandanum verður tekið fyrir. Játningin er hluti af samkomulagi sem Volkswagen gerði við bandarísk yfirvöld. Reuters greinir frá.

Árið 2015 gerðist Volkswagen uppvíst að stórfelldu svindli í útblástursmælingum opinberra aðila í Bandaríkjunum og Evrópu. Um er að ræða eitt af umfangsmeiri svindlmálum sem upp hafa komið í bílabransanum síðustu ár. Fyrirtækið þróaði hugbúnað sem þekkti aðstæður í opinberum útblástursmælingum og gaf ranga mynd af útblæstrinum.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur lagt fram þrjár ákærur gegn bílaframleiðandann sem mun játa sök í þeim öllum. Er það hluti af samkomulagi sem Volkswagen gerði við dómsmálaráðuneytið. Þá mun fyrirtækið einnig greiaða 4,3 milljarða bandaríkjadollara í sekt.

Sem hluti af samkomulaginu mun óháð nefnd fylgjast með starfsemi Volkswagen næstu þrjú árin til þess að ganga úr skugga um að fyrirtækið muni ekki reyna að svindla á útblástursmælingum á nýjan leik.

Volkswagen hefur einnig samþykkt að leggja til hliðar 22 milljarða dollara í sjóð til þess að greiða skaðabætur til eigenda bílanna sem um ræðir. Þá hefur fyrirtækið einnig boðist til þess að kaupa aftur um 500 þúsund af þeim bílum sem voru búnir þeim hugbúnaði sem um ræðir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×