Viðskipti innlent

Ingibjörg Pálma komin í hóp tuttugu stærstu hluthafa Haga

Hörður Ægisson skrifar
Félag Ingibjargar Pálmadótotur, aðaleiganda 365 miðla, er komið í hóp tuttugu stærstu hluthafa Haga.
Félag Ingibjargar Pálmadótotur, aðaleiganda 365 miðla, er komið í hóp tuttugu stærstu hluthafa Haga.
Félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, aðaleiganda fjölmiðlafyrirtækisins 365, er komið í hóp tuttugu stærstu hluthafa verslunarfyrirtækisins Haga með 1,28% eignarhlut. Miðað við núverandi gengi bréfa Haga er hluturinn metinn á um 770 milljónir króna. 

Ingibjörg á bréfin í Högum, samanlagt 15 milljónir hluta, í gegnum fjárfestingafélagið SM Investments. Greint var frá því í lok nóvember í fyrra að félag Ingibjargar hefði eignast 0,93% hlut í smásölurisanum, sem þá var metinn á um 600 milljónir, en sá eignarhlutur dugði ekki til að skila félaginu á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Haga. Ingibjörg hefur núna nýverið bætt við sig fjórum milljónum hluta í Högum.

Þá á félagið Minna Hof ehf., sem er í eigu Lilju Pálmadóttur, systur Ingibjargar, jafnframt 0,33% hlut í Högum. Ingibjörg og Lilja eru dætur Pálma Jónssonar, stofnanda Hagkaupa.

Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, og fjölskylda hans voru sem kunnugt er aðaleigendur Haga, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Bónuss og Hagkaupa. Fjölskyldan missti verslunarveldið úr sínum höndum fyrir um sjö árum þegar Arion banki yfirtók eignarhaldsfélagið 1998 sem átti þá um 95,7% hlut í Högum. Bankinn seldi síðar hlut sinn í félaginu til hóps einkafjárfesta og lífeyrissjóða og í kjölfarið voru Hagar skráðir í Kauphöll Íslands.

Eigendur Haga í dag eru að langstærstum hluta íslenskir lífeyrissjóðir, með samanlagt meira en 50% hlut í fyrirtækinu, en enga aðra einkafjárfesta er að finna á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins. Gengi bréfa í Högum hafa lækkað um fimm prósent frá áramótum en markaðsvirði félagsins nemur um 60 milljörðum króna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×