Viðskipti innlent

Gráa svæðið

Stjórnarmaðurinn skrifar

Netflix birti uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung í síðustu viku. Mörg góð tíðindi var þar að finna; tekjur félagsins voru rétt tæpir 2,5 milljarðar Bandaríkjadala á fjórðungnum sem er yfir spám og þriðjungi meira en á sama tíma fyrir ári.

Áskrifendum fjölgaði einnig meira en gert var ráð fyrir og eru nú um 75 milljónir þegar allt er talið. Netflix hefur því verið á mikilli siglingu í Kauphöllinni í New York og hækkaði um 9% strax í kjölfar birtingar árshlutauppgjörsins.

Hins vegar er áhugavert að rýna eilítið meira í tölurnar. Unnendur Netflix (stjórnarmaðurinn þar á meðal) hafa tekið eftir því undanfarin misseri að eigin framleiðsla er farin að skipa æ stærri sess hjá Netflix á kostnað aðkeypts efnis frá kvikmyndaverum á borð við Warner, Fox eða Sony.

Þetta hefur þau áhrif að inni á efnisveitunni er mun áhugaverðara efni en áður. Kostnaðurinn er líka eftir því, en áætlað er að félagið muni þurfa aukafjármögnun upp á um tvo milljarða á þessu ári til að standa undir efniskostnaði. Framleiðsla á eigin efni er ekki bara fokdýr, heldur hefur hún einnig slæm áhrif á greiðslustreymi þar sem jafnan þarf að greiða kostnað eins og hann fellur til, en ekki í jöfnum greiðslum meðan sýningar fara fram eins og gert er með aðkeypt efni.

Þetta er hins vegar ekki auðsjáanlegt í birtum uppgjörum félagsins.

Netflix hefur oft verið nefnt sem birtingarmynd hinnar nýju miðlunar á sjónvarpsefni, hefðbundið línulegt sjónvarpsefni sagt á útleið. Líklega er þó sannleikurinn einhvers staðar á gráa svæðinu. Þeir vinna sem ná að feta hinn gullna meðalveg.

Staðreyndin er sú að hefðbundið afþreyingarfyrirtæki á borð við Sky í Bretlandi er með sexfalda EBIDTA Netflix (ríflega tvo milljarða punda) en þó með aðeins ögn hærri tekjur. Þrátt fyrir það er Netflix metið á 140x EBIDTA, en Sky einungis 9x.

Netflix kann að vera framtíðin, en þeir eiga langt í land með að sýna álíka arðsemi til hluthafa sinna og hefðbundnu risarnir á markaðnum. Sennilega er nokkuð langt í land miðað við áform Netflix um efniskaup í náinni framtíð.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.

Fleiri fréttir

Sjá meira