Veiði

Flugan sem fiskurinn tekur aldrei

Karl Lúðvíksson skrifar
Ein útgáfa af Red Cardinal sem er ekki í neinu uppáhaldi hjá greinarhöfundi
Ein útgáfa af Red Cardinal sem er ekki í neinu uppáhaldi hjá greinarhöfundi

Flestir veiðimenn eiga sér sína uppáhaldsflugu sem oftar en ekki er meira notuð en hinar í boxinu og skipar sérstakan sess í öllum veiðiminningum.

En hvernig verður fluga að uppáhaldsflugu?  Oftar en ekki er það flugan sem hefur gefið veiðimanninum flesta laxa sem verður uppáhalds en það er þó ekki alltaf raunin því stundum er það flugan sem er alltaf notuð síðust eða bara við ákveðnar aðstæður.  Líklega er óhætt að nefna nokkrar flugur sem eru klárlega oftast nefndar sem uppáhaldsflugurnar en líklega hefur engin fluga verið nefnd jafn oft síðustu tvo áratugi eins og Rauð Frances.

Rauður Frances er mest notaða flugan við árbakka Íslands, það sanna veiðibækur svo um munar.  Flugan er veiðin allt tímabilið en þó eru flestir sammála að hún hefi sýnu best í byrjun sumars og svo í síðsumarsveiði.  En það eru ekki allir jafn veiðnir á þessa flugu og undirritaður er einn af þeim.  Það er ekki að ég hafi ekki trú á flugunni en ég hef í mínum veiðitúrum og í minni veiðileiðsögn ekki átt góðu gengi að fagna með Rauða Frances en það er þó ein undantekning á því.  Það var í Grímsá í september fyrir um 20 árum síðan með vini mínum Konráð þór Snorrasyni sem lést langt um aldur fram, en hann var á stöng með þá tengdaföður sínum Gunnari Inga Gunnarssyni lækni.  Þeir tveir áttu ótrúlegri velgengni að fagna í þessum túr á Rauða Frances og Gunnar var með sömu fluguna á í tvo daga og hún var ekkert nema ber öngulinn þegar hann tók síðasta laxinn á þá flugu.

Ég barði ánna með Frances en ekkert gekk.  Sleit upp tvo laxa á Blue Charm (Mín uppáhalds) en ekki söguna meir.  Svo átti ég Oddstaðafljót á eftir þeim félögum og þeir voru búnir að ná sex löxum á þremur tímum og missa annað eins.  Ég átti ekki nema tæpa tvo tíma eftir af veiðibirtu þegar ég byrjaði á þessum fræga veiðistað á landaði sjö löxum og missti fjóra, þar af landaði ég tveimur í næstum því svarta myrki og það sem var athyglisvert var að setja í lax í myrkri.  Alveg einstök upplifun.  Ég hef þó ekki síðan átt álíka velgengni ef nokkurri með Rauðum Frances en gef henni þó alltaf séns.  Hún á það skilið.

Fyrirsögnin í fréttinni varð þó til þegar ég settist niður og ætlaði að segja frá flugu sem ég prófaði mikið og lengi í bleikju en hef aldrei....ALDREI...fengið högg á hana þó að margir veiðimenn lofi hana sem magnaða flugu og fari aldrei í sjóbleikjuveiði án hennar.  Red Cardinal er ekki til í mínu boxi, það tekur hana aldrei nokkur fiskur!Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira