Fótbolti

Heimir: Frábært að fá þetta rétta viðhorf inn á völlinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrísmson á hliðarlínunni í rigningunni í Nanning í dag.
Heimir Hallgrísmson á hliðarlínunni í rigningunni í Nanning í dag. vísir/getty
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, var léttur þegar Vísir heyrði í honum eftir 2-0 sigur strákanna okkar á Kína í hádeginu í dag. Sigurinn kom íslenska liðinu í úrslitaleik Kínabikarsins sem fram fer á sunnudaginn.

Strákarnir okkar voru ekki að spila vel í fyrri hálfleiknum og Heimir var fyrsti maðurinn til að viðurkenna það. Hann var reyndar sáttur með fyrstu mínúturnar. „Fyrri hálfleikurinn byrjaði ágætlega og við vorum ánægðir með fyrstu 15-20 mínúturnar. Við fengum ágætar opnanir en misstum svo tökin á leiknum,“ segir Heimir.

„Við vissum það fyrir leikinn að Kínverjarnir myndu sækja hratt þegar þeir myndu vinna boltann og þetta slitnaði allt í sundur hjá okkur. Það sást alveg að við opnuðumst og vorum ekki að spila sem ein heild. Þá fórum við að kýla boltann fram þar sem framherjarnir voru ekki komnir í stöðu.“

Vestamanneyingurinn var aftur á móti kátur með frammistöðuna í seinni hálfleik þar sem Ísland tók forystuna á 64. mínútu með marki Kjartans Henrys Finnbogasonar.

„Vegna spilamennskunnar í fyrri hálfleik ákváðum við að færa liðið aftar í þeim síðari og þétta raðirnar. Það gekk vel og kínverska liðið átti erfitt með að spila í gegnum okkur. Þá opnuðust líka betri tækifæri fyrir okkur þegar þeir komu framar,“ segir Heimir.

„Við stýrðum leiknum betur í seinni hálfleiknum, sérstaklega þegar við vorum ekki með boltann. Við gátum hvílt í varnarleiknum með góðum færslum.“

Kjartan Henry skoraði eftir að koma inn á sem varamaður og það gerði Aron Sigurðarson líka. Báðir komu inn með mikinn kraft í liðið eins og allir varamennirnir. Þetta var þjálfarateymið ánægt með.

„Við vorum einmitt að ræða þetta eftir leikinn. Við vorum hrikalega ánægðir með viðhorfið hjá öllum leikmönnunum. Menn eru ekki í leikformi og ekki í topp standi. Það var því eðlilegt að menn urðu þreyttir enda völlurinn líka rennandi blautur. Þá var frábært að fá þetta rétta viðhorf inn á völlinn,“ segir Heimir Hallgrímsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×