Innlent

Katrín um stjórnarsáttmálann: Áhyggjuefni að lítið sé fjallað um húsnæðismál

Atli Ísleifsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir formaður VG. vísir/daníel

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segist hafa talsverðar áhyggjur af því að ekki sé lögð næg áhersla á velferðarmál í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

Hún kveðst ekki vera búin að lúslesa stjórnarsáttmálann en sé þó búin að kasta augum yfir hann. „Það er ákveðið áhyggjuefni að lítið sé fjallað um húsnæðismál sem þó ætti að vera mjög stórt mál. Það er ekki rætt um að það eigi að lengja fæðingarorlof heldur, einungis að hámarksfjárhæðir verði hækkaðar. Ég hef því talsverðar áhyggjur af því að það sé ekki nægileg áhersla á velferðarmálin.“

Katrín segir sáttmálann virðast vera mjög almennt orðaðan. „Það slær mann að það er talað mikið um uppbyggingu innviða en það kemur líka fram að hana eigi að fjármagna innan hagsveiflunnar. Það virðist eiga að byggja á ríkisfjármálaáætlun fyrrverandi ríkisstjórnar og ekki sé stefnt að því að styrkja tekjugrunn ríkisins.

Það er líka talað fyrir því, kannski með almennari hætti, að það eigi að ráðast i sölu á hlut í bönkunum þar sem fram kemur að ekki sé æskilegt að ríkið eigi jafn mikinn hlut í bankakerfinu, þannig að það verði ráðist í einhverja bankasölu á kjörtímabilinu. Það er hins vegar ekkert rætt um einhverja endurskipulagningu á fjármálakerfinu eða kerfisbreytingar þar.

Svo vekur auðvitað athygli að þeir flokkar sem hafa talað hvað mest fyrir kerfisbreytingum í sjávarútvegi virðast hafa ákveðið að það sé mikilvægara að ná sátt um tekjuöflun, eins og það var orðað, en kerfisbreytingar,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir

Bein útsending: Ný stjórn kynnt til sögunnar

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, kynna nýjan stjórnarsáttmála á blaðamannafundi í Gerðarsafni í Kópavogi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira