Enski boltinn

Þessa leikmenn ættu bestu liðin í enska boltanum að nota meira

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcos Alonso og Victor Moses
Marcos Alonso og Victor Moses Vísir/Getty

Bestu liðunum í ensku úrvalsdeildinni gengur best þegar þessir leikmenn fá sæti í byrjunarliðinu. Stjórarnir ættu að vera með þessa tölfræði á hreinu.

Frammistaða leikmanna kemur verður aldrei fullmetin út frá tölfræðinni en góð vísbending um mikilvægi leikmanna er hvernig liðinu gengur í þeim leikjum sem viðkomandi leikmaður byrjar inná.

Samantekt Sky Sports á sigurhlutfalli leikmanna bestu liðanna gæti komið sér vel fyrir knattspyrnustjórana og nú er spurning hvort eftirtaldir kappar fá jafnvel enn fleiri tækifæri á næstu vikum.

Eitt athyglisverðasta nafnið er Bacary Sagna, hægri bakvörður Manchester City liðsins. City hefur nefnilega náð í 2,7 stig að meðaltali í þeim tíu leikjum sem hann hefur spilað á leiktíðinni en hefur jafnframt fengið aðeins 1,5 stig að meðaltali í þeim tíu leikjum sem Sagna hefur verið fjarverandi.

Tveir leikmenn Chelsea eru nánast jafnir á toppnum en það eru þeir Marcos Alonso (2,6 stig í leik) og Victor Moses (2,58 stig í leik). Þegar þeir eru síðan báðir að spila þá hefur Chelsea-liðið náð í 2,79 stig að meðaltali, unnið þrettán og tapað aðeins einum. Þegar þeir eru hvorugir með hefur Chelsea síðan aðeins fengið 1,67 stig að meðaltali í leik.  

Michael Carrick er efstur hjá Manchester United liðinu enda hefur liðið ekki tapað með hann innanborðs. United hefur fengið 2,56 stig að meðaltali í þeim leikjum sem hann hefur spilað en aðeins 1,45 stig að meðaltali í leikjum án hans.

Liverpool-maðurinn Joel Matip er einnig taplaus á tímabilinu. Liverpool hefur unnið átta og gert fjögur jafntefli í þeim tólf leikjum sem hann hefur spilað.

Shkodran Mustafi er sá þriðji sem er taplaus en Arsenal hefur náð í 2,38 stig að meðaltali í þeim þrettán leikjum sem hann hefur spilað (9 sigrar og 4 jafntefli). Toby Alderweireld (2,25 stig í leik) er síðan efstur hjá Tottenham-liðinu.

Efstu menn hjá öðrum liðum eru sem dæmi Federico Fernandez  hjá Swansea, Junior Stanislas hjá Bournemouth, Leighton Baines hjá Everton, James Morrison hjá West Brom og Aaron Cresswell hjá West Ham svo einhverjir séu nefndir.

Það má finna meira um þessa úttekt Sky Sports með því að smella hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira