Enski boltinn

Gylfi er ekki til sölu sama hversu mikið Everton, Dýrlingarnir og allir hinir bjóða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er eftirsóttur maður.
Gylfi Þór Sigurðsson er eftirsóttur maður. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta og leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni, er ekki til sölu. Swansea ætlar að gera allt hvað það getur til að halda í Hafnfirðinginn á meðan janúarglugginn er opinn og mun ekki selja hann sama hversu hátt tilboð berst. Þetta kemur fram í velskum miðlum í morgun. 

South Wales Evening Post greinir frá því að Everton, sem bauð 25 milljónir punda í Gylfa síðasta sumar, ætli að reyna aftur við íslenska miðjumanninn áður en mánuðurinn er á enda en Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, virðist mikill aðdáandi Gylfa Þórs.

Sjá einnig:Gylfi Þór: „Vil ekki vera með fall úr úrvalsdeildinni á ferilskránni“

Fram kemur í fréttinni að Swansea ætli þó ekki að selja Gylfa en Wales Online gengur enn lengra og fullyrðir að Swansea muni ekki selja Gylfa sama hversu hátt tilboð berst í janúar.

Guðmundur Benediktsson, lýsandi á Stöð 2 Sport og umsjónarmaður Messunnar, sagði frá því á Twitter-síðu sinni á dögunum að Southampton hefði boðið 34 milljónir punda í Gylfa en Swansea hefði hafnað því. Það er í takt við fréttir velsku blaðanna í morgun.

Gylfi Þór er langbesti leikmaður Swansea-liðsins en hann er búinn að skora sex mörk og leggja upp önnur fimm á tímabilinu. Hann bjargaði liðinu frá falli á síðustu leiktíð með því að skora níu mörk og leggja upp tvö á seinni hluta leiktíðar en nú er liðið aftur í fallbaráttu.

Áður en tímabilið hófst skrifaði Gylfi Þór undir nýjan fjögurra ára samning við Swansea. Hann virðist vera mjög eftirsóttur og hefur verið settur á lista yfir líklega leikmenn sem verða seldir í janúar.

Sjálfur hugsar hann sér ekki til hreyfings: „Eins og ég hef sagt í síðustu viðtölum er ég ekkert að spá í þessu. Næstu tveir mánuðir eru mikilvægur tími fyrir liðið þar sem við þurfum að komast á skrið og vinna leiki. Ég einbeiti mér algjörlega að liðinu og því að fara að vinna einhverja leiki. Ég vil ekki vera með fall úr úrvalsdeildinni á ferilskránni,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í viðtali í Akraborginni á X977 í síðustu viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×