Innlent

Sigmundur Davíð segist hafa lent í því að þurfa að hrósa nýjum ráðherrum

Birgir Olgeirsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segist hafa lent í því í dag að þurfa að hrósa ráðherrum nýrrar ríkisstjórnar á fyrsta degi hennar.

Þetta segir Sigmundur Davíð á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir Jón Gunnarsson, nýjan samgöngu-, fjarskipta- og byggðamálaráðherra, koma sterkan inn og sýna skilning á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar.

Vísir greindi frá því í dag að Jón sæi enga aðra lausn í stöðunni en að hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni.

Sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson, sem jafnframt er fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði Jón byrja ömurlega í embætti og að hann hefði með orðum sínum gert stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar að marklausu plaggi og þar með gefið tón um illindi og heift.

Sigmundur Davíð er ekki á sama máli. Á Facebook segist hann vonast til þess að Jón nái vonandi saman við Framsókn og flugvallarvini í borginni um enduropnun neyðarbrautarinnar.

„Svo virðist utanríkisráðherrann gefa til kynna að hann muni halda áfram vinnu forveranna við að nýta Brexit og breytingar á ESB. Nú er bara að vona að aðrir í stjórnarflokkunum leyfi þeim að ná árangri í þessum málum,“ segir Sigmundur Davíð og á þar við Guðlaug Þór Þórðarson, nýjan utanríkisráðherra.

 


Tengdar fréttir

Gísli Marteinn segir Jón byrja ömurlega

Gísli Marteinn Baldursson segir að með orðum sínum um Reykjavíkurflugvöll geri Jón stjórnarsáttmálann að marklausu plaggi og gefi tón um illindi og heift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×