Handbolti

Omeyer í ham í stórsigri Frakka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Omeyer varði 14 skot í fyrri hálfleik.
Omeyer varði 14 skot í fyrri hálfleik. vísir/getty

Frakkar áttu ekki í miklum vandræðum með að leggja Brasilíumenn að velli í upphafsleik HM 2017. Lokatölur 31-16, Frakklandi í vil.

Frakkar fengu lygilega markvörslu í leiknum í París í kvöld. Hinn fertugi Thierry Omeyer varði 14 skot í fyrri hálfleik (67%) og Vincent Gerard níu í þeim seinni (50%). Sá síðarnefndi skoraði einnig eitt mark.

Frakkar byrjuðu leikinn af miklum krafti og eftir 17 mínútur var staðan orðin 10-3. Tíu mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 17-7.

Didier Dinart, sem stýrði Frökkum í fyrsta sinn á stórmóti í kvöld, gat leyft sér að dreifa álaginu og koma sem flestum leikmönnum í gang fyrir framhaldið. Í seinni hálfleik jókst munurinn enn frekar og Frakkar unnu að lokum 15 marka sigur, 31-16.

Valentin Porte var markahæstur í franska liðinu með sex mörk. Adrien Dipanda, Michael Guigou, Nikola Karabatic, Daniel Narcisse og Olivier Nyokas skoruðu þrjú mörk hver.

Næsti leikur Frakka er gegn Japan á laugardaginn.Fleiri fréttir

Sjá meira