Viðskipti innlent

Þessi vegur fær forgang hjá nýjum vegamálaráðherra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar.
Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar.
Jón Gunnarsson, nýr ráðherra vegamála, boðar að farið verði strax í gerð mislægra gatnamóta við Krýsuvíkurveg í Hafnarfirði sem fyrsta áfanga í að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar. 

Jón Gunnarsson var í viðtali í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun. Þar kvaðst hinn nýi ráðherra vegamála ætla að forgangsraða til þeirra vegarkafla sem kostað hafa hættulegustu slysin.

„Ein hættulegustu gatnamót landsins eru til dæmis í Hafnarfirði, Krýsuvíkurgatnamótin, og þau eru á dagskrá,“ sagði Jón. Spurður hvað það þýddi svaraði hann:

„Framkvæmdir eru bara að hefjast. Ég mun setja það bara mjög fljótlega af stað.“ 

Jón sagði að til að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar úr Hafnarfirði að Hvassahrauni þyrfti 6,3 milljarða króna. 

„Þetta eru stórar tölur sem við erum að eiga við. Þar af eru þessi mislægu gatnamót við Krýsuvík um einn milljarður, og það er fyrsta skrefið sem við tökum og síðan höldum við áfram. En það er mikilvægast að koma þessum gatnamótum í lag.“

Jón Gunnarsson samgönguráðherra.vísir/pjetur
Hann kvaðst jafnframt vilja skoða einkafjármögnun samgöngumannvirkja og vitnaði til vinnu forvera síns, Ólafar Nordal. 

Hlusta má á viðtalið við Jón í morgunþætti Bylgjunnar í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Fresta opnun tilboða í Dýrafjarðargöng

Opnun tilboða í Dýrafjarðargöng, sem fram átti að fara í dag, hefur verið frestað um tvær vikur, að ósk verktaka, sem töldu sig þurfa lengri tíma til að ganga frá tilboðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×