Viðskipti innlent

Flokka Íslendinga eftir áhrifum þeirra

Snærós Sindradóttir skrifar
Teymið á bakvið Ghostlamp núna. Eitt þeirra er sjálft áhrifavaldur og segir mikla vinnu liggja á bak við samfélagsmiðlareikninginn sinn. Vinsældir á samfélagsmiðlum sé engin tilviljun.
Teymið á bakvið Ghostlamp núna. Eitt þeirra er sjálft áhrifavaldur og segir mikla vinnu liggja á bak við samfélagsmiðlareikninginn sinn. Vinsældir á samfélagsmiðlum sé engin tilviljun. mynd/antonía lárusdóttir
Íslenskt fyrirtæki hefur hannað forrit til að finna fólk á samfélagsmiðlum sem getur auglýst vörur með nýstárlegum hætti. Fyrirtækið kallar fólkið áhrifavalda og flokkar þá, sem undir frumskilgreiningu fyrirtækisins falla, eftir áhugasviði þeirra og markhópsins sem fólkið nær til.

Fyrirtækið Ghostlamp var stofnað árið 2014 af Jóni Braga Gíslasyni. Nýlega gengu til liðs við fyrirtækið forritarar sem komu í gagnið leitarforriti sem gengur sjálfvirkt allan sólarhringinn og finnur fólk sem hefur nægilega stóran fylgjendahóp á samfélagsmiðlum. Jón Bragi fullyrðir að forritið sé það fyrsta sinnar tegundar í heiminum og hafi fyrirtækið nú þegar um milljón manns á skrá sem falla að skilyrðum fyrirtækisins.

Jón Bragi Gíslason, stofnandi Ghostlamp. Mynd/ Antonía Lárusdóttir
Þar af eru ríflega 20 þúsund Íslendingar. „Við erum að miða við að þú hafir yfir eitt þúsund fylgjendur á Instagram. Það er samt ekki nóg að vera með mjög marga fylgjendur því við leitum að fólki sem er búið að byggja upp sterk tengsl við sinn fylgjendahóp,“ segir Jón Bragi.

Fyrirtækið flokkar áhrifavaldana í mikilvægisröð eftir því hversu stóran markhóp hver og einn hefur. Í stuttu máli virkar það þannig að Ghostlamp fær til viðskipta við sig fyrirtæki sem skipuleggja herferð. Sem dæmi má nefna að fyrirtækið hefur auglýst útivistarfatnað. Í kjölfarið hefur Ghostlamp samband við það fólk sem passar við vöruna og býður því að auglýsa hana gegn gjaldi.

Jón Bragi hafnar því að um duldar auglýsingar sé að ræða. „Nei, þetta eru ekki duldar auglýsingar. Við erum ekki að ritstýra neinu. Áhrifafólkið fær bara tilboð um að taka þátt og við gefum því algjört listrænt frelsi á það hvernig það tjáir sig um vörur og þjónustu og þar af leiðandi er þetta ekki auglýsing sem slík.“

Innan skamms heldur Jón Bragi utan til að skipuleggja stóra herferð með alþjóðlegum risavörumerkjum sem þó má ekki greina frá strax vegna samninga. Fyrirtækið er nú þegar farið að starfa í Evrópu og Bandaríkjunum með þarlendum áhrifavöldum.

„Þú getur fengið allt að 50 þúsund krónur fyrir herferð sem tekur þig einn dag að framkvæma. Fyrirtækin fá alvöru fólk til að vera talsmenn vörunnar sinnar og þeir búa til frábært efni til að kynna vöruna. Það fólk fær svo bara borgað eftir því hversu áhrifaríkt það er.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×