Handbolti

Guðmundur, Dagur og Kristján á HM: Hundrað prósent árangur og 78 mörk í plús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Andrésson, Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson eru að gera frábæra hluti með sín landslið.
Kristján Andrésson, Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson eru að gera frábæra hluti með sín landslið. Vísir/Samsett

Íslenska handboltalandsliðið hefur aðeins náð í eitt stig af sex mögulegum í fyrstu þremur leikjum sínum á HM í handbolta í Frakklandi en það er ekki mikið hægt að kvarta yfir hinum þremur íslensku þjálfurum á heimsmeistaramótinu.

Kristján Andrésson, Dagur Sigurðsson og Guðmundur Guðmundsson hafa stýrt sínum landsliðum til sigurs í báðum leikjum sínum á HM til þessa.

Sænska landsliðið hefur unnið tvo risasigra í fyrstu tveimur leikjum sínum á stórmóti undir stjórn Kristján Andréssonar. Svíar unnu 17 marka sigur á Barein og 18 marka sigur á Argentínu en sænska liðið hefur aðeins fengið á sig 16,5 mörk að meðaltali í leik.

Svíar eru einnig með bestu skotnýtinguna en liðið hefur nýtt 72 prósent skota sinna í þessum tveimur leikjum. Svíar ásamt Þjóðverjum eru líka það lið sem hefur tapað fæstum boltum eða aðeins 13 í þessum tveimur leikjum.

Þjóðverjar, undir stjórn Dags Sigurðssonar, fylgdu eftir fjögurra marka sigri á Ungverjalandi með því að vinna 21 marks sigur á Síle í gær. Þjóðverjar hvíla í dag en mæta Sádí Arabíu á morgun sem ætti að vera annar auðveldur sigur.

Danska landsliðið hefur ekki verið í miklum vandræðum í sínum fyrstu tveimur leikjum, vann fyrst ellefu marka sigur á Argentínu og svo sjö marka sigur á Egyptalandi. Guðmundur hefur dreift álaginu á sína menn og sjö leikmenn hafa skorað á bilinu fjögur til átta mörk í leikjunum tveimur.

Samanlagt hafa þessir þrír þjálfarar unnið leikina sex með samtals 78 marka mun eða þrettán mörkum að meðaltali í leik.

Það verður stór stund í kvöld þegar þeir Guðmundur og Kristján mætast með sín lið í lykilleik í D-riðlinum. Það er ljóst að báðir geta ekki verið með hundrað prósent árangur eftir þann leik. Leikurinn hefst klukkan 19.45 í kvöld.


Leikir sænska landsliðsins undir stjórn Kristján Andréssonar á HM 2017:
17 marka sigur á Barein (33-16)
18 marka sigur á Argentínu (35-17)
4 stig af 4 mögulegum og 35 mörk í plús

Leikir þýska landsliðsins undir stjórn Dags Sigurðssonar á HM 2017:
4 marka sigur á Ungverjalandi (27-23)
21 marks sigur á Síle (35-14)
4 stig af 4 mögulegum og 25 mörk í plús

Leikir danska landsliðsins undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar á HM 2017:
11 marka sigur á Argentínu (33-22)
7 marka sigur á Egyptalandi (35-28)
4 stig af 4 mögulegum og 18 mörk í plús


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.