Handbolti

Geir veit hver vandamál Íslands eru: „Nú þurfum við að vinna í þeim“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir okkar í handboltalandsliðinu eiga tvo mikilvæga leiki fyrir höndum á þriðjudag og fimmtudag á móti Angóla og Makedóníu en þar ræðst hvar liðið endar í sínum riðli.

Ísland hefur ekki byrjað verr á stórmóti í þrettán ár og ekki byrjað verr á heimsmeistaramóti síðan árið 1978 eins og kom fram í frétt Vísi í dag. Strákarnir eru komnir með bakið upp við vegg fyrir síðustu leikina.

Sóknarleikurinn hefur ekki verið nægilega góður á mótinu og Geir Sveinsson, þjálfari Íslands, er fullmeðvitaður um það. Hann og þjálfarateymið er búið að greina vandamálin en hann fór yfir það helsta í viðtali við íþróttadeild í dag.

„Til að byrja með vorum við einfaldlega ekki að ná að nýta nægilega vel fram á við þá varnarvinnu sem við vorum að skila. Sóknin byrjar þegar þú vinnur boltann - hröðu sóknirnar og annað. Þetta sáum við sérstaklega á móti Spáni, þetta lagaðist á móti Slóveníu og var mun betra á móti Túnis,“ segir Geir.

„Við skorum í kringum 40 prósent marka okkar á móti Túnis úr hröðum sóknum og nú hafa um 29 prósent marka okkar komið úr hröðum sóknum sem er í heildina nokkuð gott. Þetta hefur okkur tekist að vinna með.“

Uppstilltur sóknarleikur Íslands á hálfum velli hefur ekki gengið nógu vel en mörkin í fyrri hálfleik voru færri á móti Slóveníu og Túnis en þau voru í fyrsta leik á móti Spáni.

„Þeim kannski fækkar aðeins mörkunum í ljósi þess að við stöndum ansi lengi í vörninni. Við stöndum vel þar og því erum við lengur í vörn og því fækkar sóknum okkar. Það er samt alveg klárt mál að við getum gert örlítið betur,“ segir Geir.

„Sóknarnýting okkar er í kringum 50 prósent. Ég vil hafa hana hærri. Það liggur svolítið mikið í tæknifeilunum. Við erum með 30 tæknifeila sem eru tíu að meðaltali í leik og það er of hátt. Ég vil vera í kringum sex til átta. Ef við fækkum þeim fáum við tækifæri á að skora fleiri mörk. Skotnýtingin er í kringum 60 prósentum sem er nokkuð gott. Við vitum hvar vandamálin liggja en nú þurfum við bara að vinna í þeim,“ segir Geir Sveinsson.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Ásgeir Örn: Ég þarf að rífa mig upp

"Það eru blendnar tilfinningar eftir helgina,“ segir Ásgeir Örn Hallgrímsson en íslenska liðið fékk eitt stig út úr tveimur hörkuleikjum gegn Slóveníu og Túnis.

Kári: Ég verð að grípa boltann

Kári Kristján Kristjánsson hefur ekki fundið fjölina sína á HM og er ekki enn kominn á blað. Hann er eðlilega ekki nógu sáttur við það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×