Handbolti

Íslenska leyndarmálinu uppljóstrað: „Hefðum aldrei fengið silfur á ÓL án Bogdan og Boris“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bogdan Kowalczyk í viðtali við Guðjón Guðmundsson, fyrrverandi samstarfsmann sinn.
Bogdan Kowalczyk í viðtali við Guðjón Guðmundsson, fyrrverandi samstarfsmann sinn. vísir/pjetur

Íslenskir þjálfarar hafa verið mjög áberandi í handboltaheiminum undanfarin ár. Alfreð Gíslason er búinn að leika sér að þýsku deildinni með Kiel, Erlingur Richardsson gerði Füchse Berlín tvívegis að heimsmeistara félagsliða og svo eru það landsliðsþjálfararnir.

Á síðasta ári gerði Dagur Sigurðsson ungt og meiðslum hrjáð lið Þýskalands að Evrópumeistara og vann brons á Ólympíuleikunum. Guðmundur Guðmundsson, sem vann silfur með Íslandi á ÓL 2008, gerði Dani að Ólympíumeisturum í fyrra.

Nú er ný stjarna að láta ljós sitt skína. Kristján Andrésson er fyrsti Íslendingurinn sem stýrir landsliði Svía en hann á enn eftir að tapa leik með Svíana. Hann fær erfitt verkefni í kvöld þegar Svíar mæta Ólympíumeisturum Danmerkur í stórleik D-riðils.

Sænska blaðið Aftonbladet leitaði að leyndarmálinu á bakvið þessa þjálfara og velgengni íslenska handboltalandsliðsins undanfarna áratugi. Blaðamaður þess ferðaðist til Reykjavíkur og hitti þar Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamann og handboltasérfræðing, og Rússann Boris Bjarna Akbachev sem þjálfaði gullkynslóð Vals með Ólaf Stefánsson og Dag Sigurðsson á sínum tíma.

Bogdan á æfingu með Víkingi. Ljósmyndasafn Reykjavíkur/sveinn þormóðsson

Leikmenn urðu þjálfarar
Guðjón var aðstoðarmaður Pólverjans Bogdan Kowalczyk hjá íslenska landsliðinu en Bogdan gerði Víking að stórliði í Evrópu og margföldum Íslands- og bikarmeisturum áður en hann tók við íslenska liðinu. Það eru allir sammála um það að Bogdan breytti landslaginu í íslenskum handbolta.

„Hann kom með nýjungar inn í íslenskan handbolta. Við æfðum miklu meira og sóknin var skipulagðari. Allt liðið vissi hvað það átti að gera. Svona hafði aldrei verið spilað á Íslandi áður,“ segir Guðjón, en Bogdan var þjálfari Íslands þegar það vann B-keppnina í Frakklandi árið 1989.

Tveir leikmenn þess liðs; Alfreð Gíslason og Guðmundur Guðmundsson, eru í dag á meðal bestu þjálfara heims en fleiri leikmenn eins og Kristján Arason og Júlíus Jónasson áttu eftir að spreyta sig í þjálfun með góðum árangri. Dagur Sigurðsson er svo af Boris-skólanum og því óhætt að segja að þessir tveir menn frá austurblokkinni gerðu mikið fyrir íslenskan handbolta.

„Þrátt fyrir að vinna aldrei saman höfðu þessir tveir menn mikil áhrif á íslenskan handbolta. Það var bylting að fá þá hingað og þeir eru lykillinn að öllu sem fylgdi í kjölfarið. Við hefðum aldrei fengið silfur á ÓL 2008 án Bogdan og Boris,“ segir Guðjón Guðmundsson.

Alla greinina á sænsku má lesa hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.