Innlent

Bein útsending: Polar Nanoq kemur til hafnar í Hafnarfirði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Þrír skipverjar á grænlenska togaranum Polar Nanoq hafa verið handteknir grunaðir um að hafa upplýsingar sem tengjast hvarfinu á Birnu Brjánsdóttur. Reiknað er með því að Polar Nanoq leggist að bryggju um klukkan 23 í kvöld.

Öllu svæðinu við Hafnarfjarðarhöfn hefur verið lokað fyrir almenningi. Töluverð umferð hefur verið á svæðinu í dag og í kvöld en Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn málsins, segir viðbúið að töluvert verði af fólki við Hafnarfjarðarhöfn í kvöld. 

Hvetja almenning til að halda sig heima
Þeim tilmælum er beint til almennings að halda sig heima. Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn hvetur fólk til að fylgjast frekar með málinu í fjölmiðlum.

Polar Nanoq hélt áleiðis til Íslands fyrir tæpum sólarhring. Um hádegisbil í dag fóru sérsveitarmenn um borð í togarann og handtóku tvo grænlenska skipverja. Þriðji skipverjinn var svo handtekinn á tíunda tímanum í kvöld.

Fjölmiðlar hafa takmarkaðan aðgang að lokaða svæðinu en þó meiri en almenningur. Vísir verður með beina útsendingu frá komu skipsins í Hafnarfjarðarhöfn. Lögregla er meðvituð um útsendinguna.

Aðrir skipverjar frjálsir ferða sinna
Við komu skipsins í Hafnarfjarðarhöfn verða hinir grunuðu fluttir frá borði í fylgd lögreglu. Lögreglumenn munu fara um borð í skipið og það skoðað fram á nótt.

Aðrir skipverjar eru frjálsir ferða sinna hér á landi en munu, einhverjir að minnsta kosti, verða fengnir í skýrslutöku hjá lögreglu. 

Lögregla hefur til hádegis á morgun til að fara fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum sem handteknir voru í hádeginu í dag en til 20:30 annað kvöld til að fara fram á gæsluvarðhald yfir þriðja manninum.

Uppfært klukkan 00.40. Útsendingunni er nú lokið. Upptaka af henni er aðgengileg í spilaranum efst í fréttinni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.