Innlent

Venjan að hafa allt of mikinn mat á borðum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Matarleifar í gámi. Hver íbúi hér á landi fleygir að meðaltali 23 kg af nýtanlegum mat á ári og 39 kg af ónýtanlegum mat. Hver íbúi hellir niður 22 kg af matarolíu og fitu og 199 kg af drykkjum.
Matarleifar í gámi. Hver íbúi hér á landi fleygir að meðaltali 23 kg af nýtanlegum mat á ári og 39 kg af ónýtanlegum mat. Hver íbúi hellir niður 22 kg af matarolíu og fitu og 199 kg af drykkjum.

Umferðin um vefinn matarsoun.is tók sérstakan kipp eftir Áramótaskaupið. „Baráttan gegn matarsóun er farin að vekja meiri og meiri athygli. Ég tók gríninu í Áramótaskaupinu, þegar Helga Braga Jónsdóttir sá til þess að ekki yrði matarögn leift á heimilinu, sem miklu hrósi og það vakti enn frekari athygli á því sem við erum að gera,“ segir Ingunn Gunnarsdóttir sem hefur umsjón með vefnum matar­soun.is fyrir hönd Umhverfisstofnunar. Stofnunin sér um vefinn, sem settur var á laggirnar í mars í fyrra, ásamt fjölmörgum samstarfsaðilum.

Um 60 til 70 manns skoða nú vefinn á hverjum degi, að sögn Ingunnar sem er með meistaragráðu í umhverfisstjórnsýslu og er sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. „Þar eru ýmsar leiðbeiningar fyrir almenning um hvernig hægt er að draga úr matar­sóun, eins og til dæmis uppskriftir. Auk þess er þar skammtareiknivél sem er mjög hentugt að nýta sér þegar halda á matarboð. Það er mikil lenska hjá Íslendingum að hafa alltof mikinn mat á borðum. Þeir telja að boðið sé slæmt ef maturinn klárast. En ef rétt er skammtað geta allir verið mettir þótt maturinn klárist. Auðvitað borða margir afganga daginn eftir en samt er miklu hent.“

Ingunn Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun

Rannsókn á vegum Umhverfisstofnunar í fyrra sýndi að hver íbúi hér á landi fleygir að meðaltali 23 kg af nýtanlegum mat á ári og 39 kg af ónýtanlegum mat. Hver íbúi hellir niður 22 kg af matarolíu og fitu og 199 kg af drykkjum.

Rannsóknin var úrtaksrannsókn og skiptist í tvo hluta, annars vegar heimilishluta þar sem matarsóun á heimilum landsmanna var mæld og hins vegar fyrirtækjahluta þar sem matarsóun í tilteknum geirum atvinnulífsins var mæld. Af 1.036 heimila úrtaki úr þjóðskrá bárust svör frá 123. Í fyrirtækjahlutanum lenti 701 fyrirtæki í úrtaki, úr 17 mismunandi atvinnugreinaflokkum. Svör bárust frá 84 fyrirtækjum úr 12 atvinnugreinaflokkum.

Í forvarnarstefnu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Saman gegn sóun, sem er til 12 ára, verður lögð áhersla á baráttuna gegn matarsóun fyrstu þrjú árin, að því er Ingunn greinir frá. „Í ár verður lögð áhersla á að koma fræðslu inn í skólana. Ég er að fara að búa til kennsluefni en mikil eftirspurn hefur verið eftir því. Kennarar hafa hringt og beðið um slíkt efni.“

Fréttin birtist fyrst í FréttablaðinuAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira