Sport

LeBron finnur til með Rondu: „Ég veit hvernig henni líður því ég gekk líka í gegnum þetta“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ronda Rousey er mögulega hætt.
Ronda Rousey er mögulega hætt. vísir/getty

Bardagadrottningin Ronda Rousey hefur fengið stuðning úr ýmsum áttum eftir að Amanda Nunes barði hana í klessu í endurkomubardaga Rondu í Las Vegas fyrir helgi. Óvíst er hvort Ronda berjist aftur en það tók Nunes aðeins 48 sekúndur að ganga frá ofurstjörnunni.

Ronda var ekki búin að berjast í rúmt ár þegar hún steig aftur inn í búrið. Hún var ekki lík sjálfri sér og minnti frekar á boxpúða er Nunes, sem virðist líkleg til að halda bantamvigtarbeltinu í einhvern tíma, lét höggin dynja á andliti fyrrverandi meistarans.

Sjá einnig: Segir Rondu að hætta og einbeita sér að leikaraferlinum

Bardagakappinn Jon Jones kom Rondu til varnar á Twitter en hún er búin að fá mikinn skít á samfélagsmiðlum fyrir frammistöðu sína og sérstaklega í ljósi þess að hún lokaði á fjölmiðla fyrir bardagann. Kobe Bryant, fyrrverandi leikmaður LA Lakers, sagði fólki á Twitter að hætta að gera lítið úr Rondu, frekar ætti það að þakka henni fyrir að koma íþróttinni á kortið.

LeBron James, besti leikmaður NBA-deildarinnar og ríkjandi meistari með Cleveland Cavaliers, finnur til með Rondu því hann veit nákvæmlega hvernig henni líður. Hann kom bardagadrottningunni til varnar í viðtali við Akron Beacon Journal.

Sjá einnig: Ronda: Ætla að taka mér tíma til að hugsa um framtíðina

„Í íþróttum vilja allir byggja þig upp eins hátt og þeir geta og koma þér fyrir á hæsta tindi heims til þess eins að rífa þig niður. Þetta kemur frá manni sem upplifði þetta,“ segir LeBron sem varð að óvini NBA-deildarinnar númer eitt þegar hann fór frá Cleveland til Miami.

„Þetta er staðreynd. Ég veit nákvæmlega hvernig henni líður því ég var þessi íþróttamaður. Ég gekk í gegnum þetta,“ segir LeBron James.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira