Innlent

Árásin í Gerðunum: Barði mág sinn ítrekað í höfuðið með hamri

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn sem fyrir árásinni varð er marghöfuðkúpubrotinn og liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild.
Maðurinn sem fyrir árásinni varð er marghöfuðkúpubrotinn og liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild. vísir/gva
Maðurinn sem varð fyrir líkamsárás í Gerðunum í Reykjavík á nýársnótt liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans, en heimildir fréttastofu herma að árásarmaðurinn hafi barið hann ítrekað í höfuðið með hamri. Árásarmaðurinn hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald vegna alvarleika árásarinnar.

Mennirnir tveir eru mágar, eftir því sem fréttastofa kemst næst. Ekki er vitað hvað árásarmanninum gekk til né hvort þeir hafi átt í einhverjum deilum umrætt kvöld.

Árásin átti sér stað utandyra rétt eftir miðnætti. Nágranni kom að fórnarlambinu þar sem það lá í götunni og var afar illa leikið. Maðurinn er marghöfuðkúpubrotinn en ekki talinn í lífshættu.  Lögregla og sjúkralið voru í kjölfarið kölluð til og var gerandinn handtekinn á staðnum. Hann var yfirheyrður og leiddur fyrir dómara um hádegisbil í gær, þar sem hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 27. janúar næstkomandi.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar, segir að árásin hafi verið svo hættuleg að nauðsynlegt hafi verið að fara fram á svo langt gæsluvarðhald.

Grímur segir afstöðu árásarmannsins til málsins ekki liggja fyrir, þ.e hvort hann játi sök eða neiti. Aðspurður segir hann að ekki sé búið að yfirheyra hann í dag en að nú sé unnið að því að safna gögnum í málinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×