Innlent

United Silicon segir ásakanir um eiturefnalosun tilhæfulausar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Fyrirtækið segir fullyrðingar um eiturefnalosun "tilhæfulausar með öllu“
Fyrirtækið segir fullyrðingar um eiturefnalosun "tilhæfulausar með öllu“ Vísir/Skjáskot
United Silicon telur óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við umfjöllun Stundarinnar um að eiturefni hafi verið losuð út í andrúmsloftið í skjóli nætur við kísilverið í Helguvík.

Fyrirtækið segir fullyrðingar Stundarinnar „tilhæfulausar með öllu“ og að ekki sé ljóst hvaða tilgangi það þjónar að „halda slíkum ósannindum fram.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá United Silicon.

Sjá einnig: Segja eiturefnum ítrekað losað út að næturlagi



„Hið rétta er að myndbandið sýnir atvik þegar verið var að losa stíflu í reykhreinsivirki sem leiddi til að kísilryk barst út um opna lúgu. Vegna þess hversu mikið ryk barst út í andrúmsloftið var þessi vinna stöðvuð eftir skamma stund og öðrum aðferðum beitt sem ekki leiddu til ryklosunar. Það ryk sem sést á myndbandinu er ekki eitrað eða hættulegt heldur verðmæt afurð og mikilvæg söluvara United Silicon sem safnað er í reykhreinsivirki, pakkað í sekki og selt meðal annars til sementsvinnslu erlendis,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir einnig að þrjár mengunarmælistöðvar séu staðsettar við kísilverið samkvæmt ábendingum Umhverfisstofnunar og að mælingarnar séu allar birtar á vefnum andvari.is. 

„Þessar mælingar sýna skýrt, að frá upphafi framleiðslu í nóvember, hefur mengun aldrei farið upp fyrir lögsett viðmiðunarmörk.“

Yfirlýsing United Silicon í heild sinni:

United Silicon telur óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við umfjöllun á vefnum Stundin.is í morgun. Þar er birt myndband frá því um miðjan desember sl. sem sagt er að sýni losun á eiturefnum. Hið rétta er að myndbandið sýnir atvik þegar verið var að losa stíflu í reykhreinsivirki sem leiddi til að kísilryk barst út um opna lúgu. Vegna þess hversu mikið ryk barst út í andrúmsloftið var þessi vinna stöðvuð eftir skamma stund og öðrum aðferðum beitt sem ekki leiddu til ryklosunar. Það ryk sem sést á myndbandinu er ekki eitrað eða hættulegt heldur verðmæt afurð og mikilvæg söluvara United Silicon sem safnað er í reykhreinsivirki, pakkað í sekki og selt meðal annars til sementsvinnslu erlendis.

Myndband sem tekið er um kl 14:30 í gær sýnir einnig kísilryk sem þyrlaðist upp þegar verið var að losa sambærilega stíflu, en án þess að nota blásara. Unnið er að úrbótum til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.

Fullyrðingar Stundarinnar um að undanfarið hafi „hættuleg eiturefni“ verið losuð út í andrúmsloftið úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar í skjóli nætur eru tilhæfulausar með öllu og ekki ljóst hvaða tilgangi það þjónar að halda slíkum ósannindum fram.

Rétt er að benda á að United Silicon er með 3 mengunarmælistöðvar, staðsettar samkvæmt ábendingum Umhverfisstofnunar og eru mælingar þeirra allar birtar á vefsíðunni andvari.is. Þessar mælingar sýna skýrt, að frá upphafi framleiðslu í nóvember, hefur mengun aldrei farið upp fyrir lögsett viðmiðunarmörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×