Handbolti

Væntingar Kristjáns til Íslands ekki miklar: Vill sjá ungu mennina fá mínútur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ómar Ingi Magnússon og Arnar Freyr Arnarsson eru atvinnumenn í Danmörku og Svíþjóð en Janus Daði hefur orðið Íslandsmeistari með Haukum undanfarin tvö ár.
Ómar Ingi Magnússon og Arnar Freyr Arnarsson eru atvinnumenn í Danmörku og Svíþjóð en Janus Daði hefur orðið Íslandsmeistari með Haukum undanfarin tvö ár. vísir/stefán/ernir
Kristján Arason, einn besti handboltamaður í sögu Íslands, gerir ekki miklar væntingar til íslenska landsliðsins í handbolta sem hefur leik á HM í Frakklandi á fimmtudaginn í næstu viku. Liðið stendur á tímamótum og gæti verið án síns besta leikmanns.

Strákarnir okkar fara á fullt í undirbúningi fyrir HM í dag þegar þeir hefja leik á Bygma-æfingamótinu í Danmörku en mótherjar dagsins eru Egyptar sem Ísland hefur ekki tapað fyrir í níu ár.

„Ég er að vona að við endum mótið sem eitt af þeim átta efstu. Að krefja það um eitthvað meira er ósanngjarnt,“ segir Kristján í Morgunblaðinu í dag en okkar menn eru í riðli með Spáni, Slóveníu, Makedóníu, Túnis og Angóla. Fjögur efstu liðin fara í 16 liða úrslitin.

Aron Pálmarsson, besti handboltamaður Íslands, er meiddur og verður ekki með í Danmörku en vonast er til að hann geti spilað á HM. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi hans.

„Það mun auðvitað breyta heilmiklu ef Aron Pálmarsson getur ekki verið með. Hann er sá leikmaður sem á að gera gæfumuninn enda okkar besti handboltamaður. Maður hefur tvenns konar sýn á liðið, með og án Arons,“ segir Kristján sem vill að yngri leikmenn, framtíð íslenska liðsins, fái nú tækifæri og spili alvöru mínútur í Frakklandi.

„Ég vil sjá Janus Daða, Ómar Inga og Arnar Frey fá að spila sína rullu á þessu móti. Ég tel að liðið verði ekki verra þótt þeir fái sína kafla. Janus og Ómar eru flinkir leikmenn og Arnar hefur staðið sig mjög vel,“ segir Kristján.

„Þetta eru strákar sem eru komnir með ágæta reynslu þótt það sé mikill munur á því að spila á stóru heimsmeistaramóti og í deildinni hér heima eða í unglingalandsliðinu. Ég myndi vilja sjá þá fá 10-20 mínútna spiltíma í hverjum leik,“ segir Kristján Arason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×