Innlent

Eigendur Tinnu ekki tekið upp úr töskunum

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Leitað var í gær í móanum fyrir ofan Keflavík eftir ábendingu.
Leitað var í gær í móanum fyrir ofan Keflavík eftir ábendingu. vísir/ernir
Umfangsmikil leit hefur staðið yfir að hundinum Tinnu frá því hún strauk úr pössun þann 29. desember. Hundasamfélagið hefur tekið saman höndum og tekið virkan þátt í leitinni. Eigendur Tinnu, Andrea Björnsdóttir og Ágúst Ævar Guðbjörnsson, lofa 300 þúsund króna fundarlaunum. Sjálf voru þau erlendis þegar Tinna týndist og hafa ekki enn tekið upp úr töskunum og ekki mætt til vinnu. Andrea er uppgefin, þreytt og þráir ekkert meir en að knúsa hundinn sinn á ný.

„Við erum orðin úrvinda, ég og Ágúst og þeir sem hafa leitað síðustu daga bæði dag og nótt. Við höfum eiginlega ekkert sofið og varla farið heim til okkar þannig að við höfum lagst á sófann hjá mömmu og pabba,“ segir Andrea og bætir við að ferðatöskurnar séu í anddyrinu hjá foreldrum hennar.

Sjá einnig: Facebook-hópurinn Leitin að Tinnu

Tinnu er sárt saknað.
„Við höfum einbeitt okkur að því að leita og ekki mætt í vinnu. Ágúst á sitt fyrirtæki og varð að fara til að greiða reikninga því sumir voru komnir með dráttarvexti. Heimurinn hefur nánast stoppað því Tinna er svo einstakur karakter og einstök fyrir okkur.“

Um miðjan dag í gær sást hreyfing í móanum fyrir ofan Heiðarhverfi í Keflavík og stukku leitarmenn af stað, vopnaðir pylsum og lifrarpylsu, eftirlætis­snakki Tinnu. Um 2.500 manns eru í Facebook-hópnum Leitin að Tinnu og er virknin þar mikil. „Við erum orðlaus yfir því hvað fólk er gott og reiðubúið að hjálpa. Þetta er mesta martröð hundaeiganda. Að hún sé í þessum kulda, hrædd og að þjást – það er svo vont.

Andrea Björnsdóttir og Ágúst Ævar Guðbjörnsson.
Ég fæ mörg símtöl á dag frá fólki sem er að stappa í okkur stálinu með alls konar sögum um hunda sem voru týndir lengi. Maður heldur í vonina að Tinna sé úrræðagóð og hún finnist sem allra allra fyrst.“

Andrea hefur leitað til björgunarsveita til að reyna að fá vana leitarmenn. Þá hafa fjölmargir boðið fram aðstoð með dróna og hitamyndavél og í raun hvað sem er til að reyna að finna hundinn. „Björgunarsveitin leitar að fólki en ekki dýrum en sá sem ég talaði við var mjög almennilegur og ætlaði að setja á innri vefinn að þeir sem vildu leita mættu gera það. Þetta er orðinn mjög langur tími og við Ágúst erum orðin örvæntingarfull yfir að finna ekki greyið.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×