Enski boltinn

Gylfi Þór: „Vil ekki vera með fall úr úrvalsdeildinni á ferilskránni“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson ætlar ekki að falla úr ensku úrvalsdeildinni.
Gylfi Þór Sigurðsson ætlar ekki að falla úr ensku úrvalsdeildinni. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea og íslenska landsliðsins í fótbolta, gat loksins fagnað aftur sigri með sínu liði í ensku úrvalsdeildinni í vikunni þegar það hafði betur gegn Crystal Palace, 2-1, á útivelli.

Gylfi Þór lagði upp fyrra mark velska liðsins fyrir miðvörðinn Alfie Mawson en Hafnfirðingurinn er nú búinn að skora fimm mörk og leggja upp önnur sex í fyrstu 20 leikjum tímabilsins. Swansea er enn í fallsæti en íþróttamaður ársins 2016 vonast til að þessi sigur kveiki aðeins í liðinu.

Sjá einnig:Gylfi Þór: Enn sætara í annað skiptið

„Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur. Við töluðum um það fyrir leikinn, að með sigri væri Palace komið með sjö stiga forskot á okkur. Það var mikilvægt fyrir okkur að vinna þá, sérstaklega á útivelli, og nú er bilið á milli okkar og Palace bara eitt stig. Það eru þarna fimm til sex lið á svipuðum stað á botninum í deildinni. Vonandi erum við að hrökkva í gang á réttum tíma,“ segir Gylfi Þór í viðtali í Akraborginni á X977.

Bob góður maður

Fjórir stjórar eru búnir að fá að taka pokann sinn í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og tveir þeirra voru að stýra Swansea. Ítalinn Francesco Guidolin var látinn fara í október og svo fékk Bandaríkjamaðurinn Bob Bradley stígvélið á milli jóla og nýárs eftir skamma dvöl.

„Það er aldrei skemmtilegt þegar menn missa starfið sitt, sérstaklega svona góður maður eins og Bob. Þetta er mjög fínn maður sem var með skemmtilegar æfingar og fínn stjóri,“ segir Gylfi Þór.

„Þetta var erfitt fyrir hann. Hann fékk stuttan tíma og náði ekki að fá neina leikmenn sem hann vildi fá. En nú er kominn nýr stjóri og vonandi gengur honum betur en okkur hefur gengið síðustu tvo til þrjá mánuði.“

Nýr stjóri Swansea, sá þriðji á þessari leiktíð, heitir Paul Clement. Hann var síðast aðstoðarmaður Carlo Ancelotti hjá Bayern München en hann hefur verið aðstoðarþjálfari hjá sumum af stærstu félögum heims undanfarin ár. Clement hafði sín áhrif á sigurinn gegn Palace þrátt fyrir að það leit út fyrir að hann væri bara upp í stúku að fylgjast með.

Gylfi Þór er búinn að koma að ellefu mörkum á tímabilinu.vísir/getty
Ekki í stöðu til að selja

„Hann kom og talaði við okkur á hótelinu fyrir Palace-leikinn og var inn í klefa fyrir leik, í hálfleik og eftir leik. Hann var líka á hliðarlínunni einhvern hluta leiksins á móti Palace,“ segir Gylfi Þór sem er spenntur fyrir nýja stjóranum.

„Mér líst mjög vel á hann. Þetta er maður sem hefur verið hjá stærstu félögum Evrópu eins og Real Madrid, PSG og Bayern þannig hann hlýtur að vita um hvað hann er tala. Þeir fáu sem hafa æft eftir Palace-leikinn tala mjög vel um æfingarnar hans.“

Gylfi Þór er mjög eftirsóttur enda verið frábær undanfarin ár í ensku úrvalsdeildinni. Aðeins einn miðjumaður hefur komið að fleiri mörkum en íslenski landsliðsmaðurinn undanfarin tvö ár og er Gylfi á lista Telegraph yfir leikmenn sem líklegt er að verði seldir í janúar. Í þessu er Gylfi ekkert að spá.

„Eins og ég hef sagt í síðustu viðtölum er ég ekkert að spá í þessu. Næstu tveir mánuðir eru mikilvægur tími fyrir liðið þar sem við þurfum að komast á skrið og vinna leiki. Ég einbeiti mér algjörlega að liðinu og því að fara að vinna einhverja leiki. Ég vil ekki vera með fall úr úrvalsdeildinni á ferilskránni,“ segir hann.

„Félagið er ekkert í þannig stöðu að það þarf að selja. Það er ekkert að fara að selja leikmenn, sérstaklega í þeirri stöðu sem við erum í núna,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.

Allt viðtalið úr Akraborginni má heyra hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×