Íslenski boltinn

Selfyssingar stöðvuðu sigurgöngu Ólafsvíkinga í Futsal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslandsmeistarar Selfoss. Richard Sæþór Sigurðsson tók við bikarnum
Íslandsmeistarar Selfoss. Richard Sæþór Sigurðsson tók við bikarnum Vísir/Stefán
Selfoss er Íslandsmeistari karla í futsal eftir 3-2 sigur á Víkingi Ólafsvík í úrslitaleik í Laugardalshöllinni í dag.

Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Selfoss í karlaflokki en stelpurnar tóku þennan titil fyrir ári síðan.

Gylfi Dagur Leifsson og Ásgrímur Þór Bjarnason skoruðu fyrir Selfoss í úrslitaleiknum en sigurmarkið var hinsvegar sjálfsmark Ólafsvíkinga.

Selfyssingar lönduðu gullinu án fyrirliða sína en Ingi Rafn Ingibergsson fékk rautt spjald á 24. mínútu fyrir sitt annað gula spjald. Ólafsvíkingar léku manni fleiri í tvær mínútur en náðu ekki að nýta sér það.

Ólafsvíkingar áttu möguleika á því að vinna titilinn þriðja árið í röð og í fjórða sinn á fimm árum og þeir komust tvisvar yfir í úrslitaleiknum.

Leikurinn snérist hinsvegar á tveggja mínútna kafla stuttu eftir að Ólafsvíkinga komust í 2-1.

Ásgrímur Þór Bjarnason jafnaði metin eftir mikið einstaklingsframtak og Emir Dokara varð síðan fyrir því að skora sjálfsmark rúmri mínútu síðar.

Tomasz Luba fékk tækifæri til að jafna metin skömmu siðar en lét þá Þorsteinn Daníel Þorsteinsson verja frá sér vítaspyrnu.

Ólafsvíkingar hafa spilað sex sinnum til úrslita í Futsal á síðustu sjö árum, unnið þrisvar en þrisvar þurft að sætta sig við silfurverðlaun.



Selfoss - Víkingur Ó. 3-2 (0-1)

Mörkin:

0-1 Þorsteinn Már Ragnarsson (10.)

- Hálfleikur -

1-1 Gylfi Dagur Leifsson  (23.)

1-2 Kristinn Magnús Pétursson (32.)

2-2 Ásgrímur Þór Bjarnason (34.)

3-2 Sjálfsmark Emir Dokara (35.)

- Ingi Rafn Ingibergsson fékk rautt spjald á 24. mínútu fyrir sitt annað gula spjald.

- Þorsteinn Daníel Þorsteinsson varði víti frá Tomasz Luba á 35. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×