Innlent

Skattaskjólsskýrslan: Svandís spyr umboðsmann hvort Bjarni hafi brotið siðareglur

Atli Ísleifsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi umhverfisráðherra. vísir/ernir
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur sent umboðsmanni Alþingis erindi þar sem hún óskar eftir því að fjallað verði um hvort að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi brotið gegn siðareglum ráðherra í tengslum við birtingu á skattaskjólsskýrslunni svokölluðu.

„Með erindi þessu er þess óskað að umboðsmaður Alþingis fjalli um hvort svo kunni að vera í því tilviki að fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson ákveður að birta ekki skýrslu um aflandsfélög fyrr enn allnokkrum vikum eftir að hún lá fyrir. Þar með var skýrslunni haldið frá almenningssjónum í aðdraganda kosninga sem eins og kunnugt er snerust að verulegu leyti um skattamál og skattaundanskot,“ segir í ereindinu.

Komið hefur fram að skýrslu starfshópsins hafi verið skilað til fjármála- og efnahagsráðuneytisins þann 13. september og Bjarni fengið kynningu á henni 5. dag októbermánaðar, 24 dögum fyrir kosningar. Skýrslan var loks gerð opinber síðastliðinn föstudag, 6. janúar.

Svandís segir að spurningar hafi vaknað um að ákvörðun ráðherrans kunni að varða c-lið 6. grein siðareglna ráðherra þar sem segir: „Ráðherra leynir ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess að öðru leyti. Ráðherra ber að hafa frumkvæði að birtingu slíkra upplýsinga sé hún í almannaþágu.“

Í inngangi að gildandi siðareglum kemur fram að ábendingum megi koma á framfæri við umboðsmann Alþingis kunni að vakna spurningar um hvort um brot á siðareglum hafi verið að ræða.

Í umræddri skýrslu kom fram að mögulegt tap íslenska ríkisins vegna vantalinna eigna Íslendinga í skattaskjólum gæti numið allt frá 2,8 milljörðum til 6,5 milljarða á ári. Þá segir að á árunum 2006 til 2014 hafi íslenska ríkið mögulega orðið af 56 milljörðum króna.


Tengdar fréttir

Bjarni segir að svör sín hafi verið ónákvæm

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að svör sín um hvenær ráðuneyti sínu hefði borist skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hafi verið ónákvæm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×