Innlent

Kárastaðamæðgur ósáttar við að ríkið vilji reka sjoppu á Þingvöllum

Jakob Bjarnar skrifar
Tóta á Kárastöðum í Þjónustumiðstöðinni í haust.
Tóta á Kárastöðum í Þjónustumiðstöðinni í haust. vísir/gva

Linda Rós Helgadóttir, dóttir Þóru Einarsdóttur á Kárastöðum við Þingvallavatn, sem rekið hefur veitingasölu í Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum frá árinu 1986, skrifar pistil á heimasíðu sína þar sem hún furðar sig á því að móðir hennar hafi verið hrakin frá rekstri sínum, en síðasti opnunardagurinn er á miðvikudag, 28. desember.

Linda Rós fer ítarlega yfir málin og furðar sig á þeirri ákvörðun Þingvallanefndar, sem Sigrún Magnúsdóttir fer fyrir, að í raun hafa selt Ólafi Erni Haraldssyni sjálfdæmi í málinu.

Linda Rós hefur unnið í sjoppunni síðan hún var 11 ára gömul og kveður hana með söknuði.

„Mér finnst jafn rangt að ríkið reki sjoppu á Þingvöllum og að ríkið myndi reka sjoppu niðri í miðbæ,“ segir Linda Rós en pistill hennar einkennist af söknuði. Auk þess sem hún gagnrýnir ákvörðunina harðlega:

„Mér finnst jafn rangt að leita að rekstraraðila út fyrir sveitina. Jafn rangt og ef ég sem bý í Reykjavík myndi fara að taka yfir rekstur í Grindavík sem einhver hefði verið með í 30 ár og byggi á svæðinu. Hvað þá af manneskju sem væri ekki heilsuhraust og hefði ekki nokkurn möguleika á að taka yfir annan rekstur eða fá sér aðra vinnu.“

Vísir hefur fjallað um málið frá því það kom upp í haust og ræddi þá við þær mæðgur sem kveðja ósáttar. Og báðum þykir þeim þessi gerningur skjóta skökku við.

Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. vísir/vilhelm

„Þjóðgarðsvörður ætlaði að reka þetta óbreytt í 1-2 ár og til stóð að kaupa af okkur allt sem við eigum þarna, hillur, tæki og fleira. En það var svo hætt við það og það á víst að fara að endurgera alla sjoppuna.“

Linda Rós segir að þó móðir sín hafi haft af þessu lífsviðurværi undanfarna áratugi sé þetta ekki sú gróðastarfsemi sem margur ætli. Og leigan hafi þrefaldast á umliðnum þremur árum eða svo og sé nú 400 þúsund krónur á mánuði.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.