Innlent

Ferðamenn séu upplýstir um að of mikið brauðát geti haft alvarlegar afleiðingar

Sveinn Arnarsson skrifar
Margeir segir á annað hundrað ferðamanna stansa daglega til að klappa og gefa hrossum hans.
Margeir segir á annað hundrað ferðamanna stansa daglega til að klappa og gefa hrossum hans. Margeir Ingólfsson
„Ég sem ábyrgðarmaður hrossa minna get ekki horft upp á nokkur hundruð manns gefa merunum mínum brauð á hverjum degi og sílspika þær. Það er ekki hollt til lengdar og þær lifa það ekki af,“ segir Margeir Ingólfsson, bóndi á Brú í Biskupstungum, um ágang ferðamanna í merastóð hans við þjóðveginn.

Margeir segir ásókn erlendra ferðamanna í hrossastóð hans vera til mikilla vandræða og með heimsóknum ferðamanna fylgi brauðgjafir og ávaxtagjafir en meltingarfæri hrossanna eru ekki gerð fyrir slíkan mat í miklum mæli.

„Ég á að sjá um velferð dýra minna en get ekki sinnt því verki fullkomlega. Við þjóðveginn er ég með stóð af fylfullum hryssum, folöldum og tryppum. Þetta tún er besta svæðið fyrir þessi hross, þarna er bæði skjól og rennandi vatn sem og að auðvelt er að koma með hey og fóðra hrossin,“ segir Margeir.

„Ég hef því sett upp skilti þar sem ég banna fóðrun hrossanna því ég er bæði ábyrgur fyrir velferð þeirra sem og að ef ferðamenn fara sér að voða innan girðingar hjá mér er ég einnig ábyrgur fyrir þeim slysum.“

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir ekkert að því að gefa hrossi brauð daglega. Hins vegar skipti magnið öllu máli ef meta á hvort gjöfin sé skaðleg hrossum eða ekki.

„Í rauninni er ekkert að því að hross éti brauð. Magnið er hins vegar það sem skiptir máli. Allt of mikið brauð­át hrossa er skaðlegt dýrunum. Því er mikilvægt að ferðamenn séu upplýstir um það að brauðát geti haft alvarlegar afleiðingar og skaðað hross. Ef sú vitneskja væri til staðar efast ég um að ferðamenn gæfu hrossum brauð við þjóðvegina,“ segir Sigurborg.

Margeir setti upp skilti við þjóðveginn til að bægja ferðamönnum frá.Margeir Ingólfsson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×