Viðskipti innlent

Við­skipta­f­réttir ársins 2016: Fleiri ferða­menn, virkari neyt­endur, stærri vöru­merki og sterkari króna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Innkoma erlendra smásölurisa, ferðamenn, virkir neytendur, Panamaskjöl og tæknigallar einkenndu meðal annars fréttir úr viðskiptalífinu í ár.
Innkoma erlendra smásölurisa, ferðamenn, virkir neytendur, Panamaskjöl og tæknigallar einkenndu meðal annars fréttir úr viðskiptalífinu í ár. Vísir
Það sem einkenndi fréttir úr viðskiptalífinu einna helst hjá Íslendingum árið 2016 var aukin vitundarvakning neytenda. Vinsælasta viðskiptafréttin á vef Vísis í ár snerist um erindi framkvæmdastjóra IKEA á Íslandi, sem benti á að útilokað væri að bjóða hér upp á sama verð og í öðrum löndum. Deilur yfir hillum í Söstrene Grene, ósanngjarn verðmunur milli landa og koma erlendra verslunarrisa á markað og áhrif hennar voru áberandi í fréttum.

Neytendamálin teygðu anga sína víða og endurspegluðust í miklum áhuga á fregnum af MS og keppinautum þeirra, Örnu í Bolungarvík og KÚ. Brúneggjahneykslið var einnig fyrirferðarmikið nú á síðari hluta ársins.

Fjórir bandarískir sjóðir, eigendur samtals um 230 milljarða króna, tóku ekki tilboði ríkisins og hófu í kjölfarið kostaða herferð þar sem þeir reyndu að bera Ísland saman við Argentínu.Vísir/GVA
Losun hafta

Ein stærsta frétt ársins var lausn aflandskrónuvandans sem er einn mikilvægasti áfanginn í afnámi gjaldeyrishafta. Lög sem Alþingi samþykkti í júní gerðu stjórnvöldum kleift að kaupa aflandskrónur á tilteknu gengi ella myndu eigendur aflandskrónanna sæta því að krónueignirnar yrðu læstar á vaxtalausum reikningum.

Sjá einnig:Buchheit: Tíminn vinnur með stjórnvöldum

Fjórir bandarískir sjóðir, eigendur samtals um 230 milljarða króna, tóku ekki tilboði ríkisins og hófu í kjölfarið kostaða herferð þar sem þeir reyndu að bera Ísland saman við Argentínu. Máflutningur þeirra var hrakinn í erlendum fjölmiðlum eins og Wall Street Journal og Financial Times og Eftirlitstofnun EFTA gaf út álit í nóvember svo hljóðandi að íslenska ríkið hefði ekki brotið neina EES-löggjöf með aflandskrónufrumvarpinu.

Krónan styrktist

Mikill uppgangur var í íslenska hagkerfinu á árinu. Krónan hélt áfram að styrkjast, atvinnuleysi var lítið og kaupmáttur jókst verulega í kjölfar launahækkana. Hrein staða við útlönd var jákvæð í lok síðasta ársfjórðungs, í fyrsta skipti frá því mælingar hófust eftir síðari heimsstyrjöld.

Íslendingar eru ekki lengur í hópi skuldara og eiga núna 60 milljörðum króna meira en þeir skulda í útlöndum. Viðskiptaafgangur á þriðja ársfjórðungi var jákvæður um 100 milljarða – það mesta í sögunni á einum ársfjórðungi og þetta var í fyrsta skipti sem hann rýfur 100 milljarða markið innan fjórðungs.

Viðskipti með hlutabréf Skeljungs hf. á aðalmarkaði Nasdaq Iceland hófust í desember. Skeljungur er annað félagið sem tekið er til viðskipta á Nasdaq Iceland árið 2016, en það fyrsta á aðalmarkaði. Valgeir Baldursson, forstjóri Skeljungs, og Hendrik Egholm, forstjóri Magn í Færeyjum, hringdu inn fyrstu viðskipti. Skeljungur er með starfsemi á Íslandi og í Færeyjum og rekur félagið samtals 76 bensínstöðvar og sex birgðastöðvar.Vísir/GVA
Dauft í kauphöllinni

Viðskiptalífið var þrátt fyrir þetta viðburðalítið á árinu. Einungis ein skráning fór fram á First North markaði Kauphallarinnar þegar Ice­land Seafood var skráð í mars og ein skráning var á aðallista þegar viðskipti hófust með bréf í Skeljungi í byrjun desember. Auk þess lækkuðu hlutabréf í Kauphöllinni töluvert, samanborið við miklar hækkanir árið 2015.

Sjá einnig:Salan á Nova valin viðskipti ársins 2016

Tvær sölur voru áberandi á árinu, annars vegar sala Björgólfs Thors Björgólfssonar á fjarskiptafyrirtækinu Nova og hins vegar salan á lyfjafyrirtækinu Invent Farma. 

Fleiri ferðamenn

Ferðamönnum hélt áfram að fjölga og nálguðust tvær milljónir yfir árið. Ferðaþjónustan hélt því áfram að þróast sem einn mikilvægasti atvinnuvegur landsins. Tölur Hagstofunnar á árinu sýndu að launþegar í ferðaþjónustu voru 26.200 í júlí og hafði fjölgað um 15 prósent milli ára.

Fréttir fóru að berast af gæðastaðlinum í greininni en margir eru farnir að óttast að ferðamenn séu orðnir of margir og rekstraraðilar séu ef til vill farnir að rukka of mikið fyrir það sem býðst. Reykjavík var í haust orðin dýrust miðað við aðrar höfuðborgir þegar litið var til hótelgistingar, matar og áfengis. Viðtal við ferðamenn sem blöskraði verðlagið var afar vinsælt í árslok.

Sjá einnig:Fannst þau eins og á valdi fjárkúgara í langþráðri brúðkaupsferð á Íslandi

Steinþór Pálsson reyndi að róa mótmælendur í höfuðstöðvum Landsbankans í janúar. Þeim blöskraði framganga bankans í tengslum við sölu hlutar hans í Borgun.Vísir/Stefán
Borgunarmálið

Eitt heitasta málið innanlands í ár var Borgunarmálið svokallaða sem sneri að sölu Landsbankans á greiðslufyrirtækinu Borgun. Málinu lauk með afsögn Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, í lok nóvember í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið.

Viðskiptabankarnir þrír áttu almennt erfitt uppdráttar í ár. Hagnaður þeirra dróst verulega saman milli ára sem endurspeglaði áhrif einskiptisliða árið áður. Tilkynnt var um hópuppsögn hjá Arion banka í september. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði í samtali við Markaðinn að nú blasti við hin raunverulega staða bankakerfisins og bætti við að mikilvægt væri að gera umhverfi íslensku bankanna samkeppnishæfara gagnvart erlendum bönkum.

Sjá einnig:Telur Íslandsbanka tilbúinn til sölu

Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi Plain Vanilla.Vísir/Vilhelm
Plain Vanilla sagði öllum upp

Bæði jákvæðar og neikvæðar fregnir bárust af viðskiptaævintýrum Íslendinga erlendis. Blaðamaður BuzzFeed hraunaði yfir leyndan kostnað WOW Air og Plain Vanilla ævintýrinu lauk eftir að NBC hætti við framleiðslu á QuizUp-þáttum.

Sjá einnig:Ris og fall Plain Vanilla

Íslenskur bjór naut aftur á móti góðs gengis erlendis, sem og svefndúkkan Lulu frá RóRó sem seldist upp nánast samstundis. CCP ákvað að opna skrifstofur í London þar sem GAMMA fékk starfsleyfi á árinu. Einnig tilkynnti fjárfestingafyrirtækið um að það hygðist færa út kvíarnar vestan hafs, í New York.

Sigmundur Davíð við Bessastaði í apríl síðastliðnum.Vísir/Anton
Mikill áhugi ef það hefur áhrif á Ísland

Sé litið til erlendra viðskiptafrétta ársins voru mest áberandi málin sem höfðu áhrif á Íslandi. Þó að hlutabréfahrun hafi átt sér stað víða erlendis í byrjun árs og olíuverð sveiflaðist gífurlega yfir árið voru það ekki málin sem snertu Íslendinga mest. Þeir höfðu meiri áhuga á þýðingu útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, svokölluðu Brexit, fyrir íslenskt hagkerfi: nú var orðið ódýrara að versla á ASOS-netversluninni en á sama tíma voru þetta slæmar fréttir fyrir íslenskan sjávarútveg.

Það erlenda mál sem snerti Íslendinga einna helst var afhjúpun Panamaskjalanna í vor. Frægir Íslendingar voru á listanum en ef til vill vakti enginn þeirra meiri athygli en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, sem sagði af sér embætti í kjölfar lekans.

Þrjú af þeim þekktu vörumerkjum sem hófu starfsemi á þessu ári og því næsta; Hard Rock, H&M og spænska fatamerkið Cortefiel.Vísir
Erlend fyrirtæki sýna mikinn áhuga

Á árinu var tilkynnt um komu H&M og Krispy Kreme til landsins og átti Costco að opna dyr sínar á árinu þótt því hafi síðan verið frestað. Einnig var Hard Rock Café opnað í lok október. Íslendingar voru mjög spenntir yfir komu þessara risa og bentu hagsmunagæsluaðilar neytenda á að koma þeirra, sér í lagi H&M og Costco, myndi hafa veruleg áhrif á smásölumarkaðinn.

Sjá einnig:Verslunarrisar mættir til leiks

Um áramótin féllu tollar af fötum og skóm niður og var það gagnrýnt verulega að sú breyting hefði ekki skilað sér að fullu í vasa neytenda. Talið er að koma H&M á þrjá staði á næstu tveimur árum muni þrýsta á frekari fataverðslækkun.

Ekki eru þó allir risar á leiðinni til landsins. Forsvarsmenn McDonald’s staðfestu í ár að Íslandi yrði áfram McDonald’s-laust.



Tæknirisar í vandræðum

Erlend vörumerki voru einnig í deiglunni í tæknimálum. Íslendingar nutu þess að spila Pokémon GO, snjallsímaleik Nintendo, eins og heimsbyggðin öll. Hlutabréf í japanska leikjaframleiðandanum ruku upp eftir nokkra lægð í kjölfar útgáfu leiksins í júlí. Bréfin náðu hæstu hæðum 19. júlí og hafa eitthvað lækkað síðan en eru þó mun hærri en í byrjun árs.

Eitt uppáhaldsmerki landsmanna, Apple, kom víða fram í fréttunum í ár vegna niðursveiflu hjá félaginu. Sala iPhone dróst saman milli ára hjá fyrirtækinu í fyrsta sinn í sögunni og gerðist þetta á öllum fjórðungum ársins.

Sjá einnig:Hvað er að gerast hjá Apple?

Svo virtist sem helsti keppinautur Apple, Samsung, væri að fara að taka yfir markaðinn, en það gekk þó ekki eftir. Í haust bárust fregnir af galla í batteríum í Samsung sem olli sprengingum í Galaxy S7 Note, nýjasta snjallsíma fyrirtækisins. Í kjölfarið forðuðust neytendur vöruna. Batterí virtust vera til vandræða allt árið en í haust viðurkenndu forsvarsmenn Apple að rafhlöðugalli hefði verið í takmörkuðu magni af iPhone 6S sem olli því að símarnir slökktu á sér með næga hleðslu og kom í ljós að sá galli hafði gert vart við sig á Íslandi.

Óljóst er hvað árið 2017 mun bera í skauti sér fyrir viðskiptalífið. Koma H&M og Costco mun líklega bera með sér einhverjar fréttir sem og áframhaldandi áhrif af losun hafta. Óvissuþættir eru margir, til að mynda hvort krónan haldi áfram að styrkjast, hvort ferðamenn haldi áfram að koma og hvaða áhrif ný ríkisstjórn muni hafa á efnahagsstefnu landsins.​

Hér að ofan höfum við dregið saman þau mál sem einkenndu viðskiptaárið. Hér fyrir neðan er síðan listi yfir þær einstöku fréttir sem flestir lesendur lásu í viðskiptunum á Vísi á árinu.



Topp 10 mest lesnu viðskiptafréttir ársins á Vísi



1. Útilokað að bjóða upp á sama verð og í öðrum löndum

2. Lá við slagsmálum vegna nýrra vegghillna í Söstrene Grene

3. Árni Harðarson skattakóngur ársins 2015

4. Blöskraði dekkjaverð á Íslandi og sparaði sér á þriðja hundrað þúsund króna

5. Hálfrar milljónar króna sófasett entist í tvö ár

6. Fjárfestar, popparar, fjölmiðla-, útgáfu- og fjarskiptafyrirtæki í Panamaskjölunum

7. Guðmundur í Jör segir fjárfesta hafa brugðist

8. Lánið hækkað um 11 milljónir. „Ég vildi fara öruggu leiðina“

9. Mikil reiði hjá starfsmönnum Arion eftir hópuppsögnina

10. Costco mun umturna íslenskum markaði


Tengdar fréttir

Salan á Borgun verstu viðskipti ársins

Viðskiptin sjálf áttu sér stað 2014 en eftirmál þeirra litu dagsins ljós á þessu ári sem endaði með skýrslu frá Ríkisendurskoðun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×