Gagnrýni

Af fláttskap og djöfuldómi, sálarleysi og sjálfustöngum

Friðrika Benónýsdóttir skrifar

Bækur
Bjargræði
Hermann Stefánsson
Sæmundur 2016
307 bls. með eftirmála

Björg Einarsdóttir, kennd við Látra, fæddist fyrir sléttum þrjú hundruð árum og hefur hvílt í gröf sinni í tvö hundruð þrjátíu og tvö ár en á engu að síður brýnt erindi við Íslendinga, einkum Reykvíkinga, á því herrans ári 2016. Í skáldsögu Hermanns Stefánssonar, Bjargræði, hefur Björg orðið í þrjú hundruð síður, lætur vaða á súðum, rekur eigin sögu og síns samtíma um leið og hún hakkar í sig þann sálarlausa sjálfustangatíma sem hlustandi hennar, líkkistusmiðurinn Tómas, er uppi á. Tómas þessi er óttalegt gauf, að hennar mati, og hefur kallað Björgu til liðsinnis við að ráða fram úr eigin ástamálum og lífskrísum. Hún lætur hann hafa það óþvegið, skammar hann eins og hvern annan rakka, reynir að hrista í hann lífsdöngun í hverri kjarnyrtri ræðunni af annarri, en reynist síðan eiga við hann erindi í eigin þágu, erindi sem valdið hefur því að hún hefur ekki getað öðlast frið í gröfinni.

Það er hrein nautn að lesa þennan reiðilestur Bjargar í útsetningu Hermanns, textinn er hrynfastur og mergjaður, málfarið aldeilis óborganleg blanda af fornu og nýju og sagan sem Björg rekur hér töluvert ólík því sem seinni tíma fræðimenn hafa viljað presentera sem sögu hennar. Í stað biturrar flökkukonu sem var hálfgerð hornkerling í samfélaginu birtist hér gríðarsterk kona, sjómaður, kraftaskáld, ástkona og uppivöðsluseggur sem sagði samtíma sínum til syndanna og lét engan eiga inni hjá sér. Aldeilis dásamleg kvenlýsing. Í leiðinni lætur Hermann Björgu gagnrýna okkar samtíma, samtíma Tómasar, á sama hátt og hún gagnrýndi eigin samtíma og athuganir hennar og ályktanir eru á köflum eiturbeittar en um leið fáránlega fyndnar.

Hinn pasturslitli líkkistusmiður hefur ekki roð við þessum kvenmanni, enda kemur hann engu orði að, öll sagan er sögð í annarri persónu og lögð í munn Bjargar. Vaðallinn verður á köflum dálítið yfirþyrmandi og lesandinn týnir áttum um stund í frábærlega fléttaðri samtvinningu fortíðar og samtíma, en eins skelegg og Björg er í þessari einræðu sinni er lítil hætta á öðru en að athyglisskertir internetlesendur samtímans séu reknir með harðri hendi inn í söguþráðinn aftur og eigi sér ekki útgöngu auðið fyrr en síðasta orð er lesið.

Hermann Stefánsson hefur löngu sannað sig sem einn okkar áhugaverðasti rithöfundur en ég er ekki frá því að með Bjargræði hafi hann toppað sjálfan sig og opnað sér nýja frásagnaræð sem vonandi heldur áfram að streyma úr í framtíðinni. Á meðan við bíðum eftir því er full ástæða til að hvetja alla sem unna góðum texta, góðri sögu, hressilegri samfélagsgagnrýni og síðast en ekki síst vel sköpuðum kvenkarakterum til að lesa Bjargræði. Ég held það sé óhætt að fullyrða að engum muni leiðast samfylgdin með Björgu.

Niðurstaða: Leiftrandi skemmtileg og vel skrifuð skáldsaga með einum kraftmesta kvenkarakter sem sést hefur í íslenskum bókmenntum langa lengi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. desember.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira