Erlent

Venesúela lokar landamærum til að koma í veg fyrir smygl

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maduro hyggst beita öllum tilteknum ráðum til þess að koma í veg fyrir smygl og byggja upp efnahag landsins.
Maduro hyggst beita öllum tilteknum ráðum til þess að koma í veg fyrir smygl og byggja upp efnahag landsins. vísir/epa
Yfirvöld í Venesúela hafa lokað landamærum sínum í 72 klukkustundir, eða þrjá sólarhringa, en þannig hyggjast þau koma í veg fyrir skipulagða peningasmyglstarfsemi yfir landamærin. Þetta tilkynnti Nicolas Maduro, forseti landsins, í gærkvöldi.

Maduro segir að eldsneyti og fleira gangi kaupum og sölum yfir landamærin. Mafían beri fyrst og fremst ábyrgð á sölunni og peningasmyglinu og segir að stjórnvöld þurfi að berjast gegn því, annars sé það í raun tímaspursmál hvenær hagkerfi landsins hrynji algjörlega.

„Við skulum eyðileggja mafíuna áður en mafían eyðileggur land okkar og efnahag,“ sagði Maduro í beinni sjónvarpsútsendingu í gær. „Þessar aðgerðir eru óumflýjanlegar, þetta var nauðsynlegt.“

Maduro segir jafnframt að glæpasamtök séu með gríðarlegt magn af 100 bólivara seðlum í felum, bæði í Kólumbíu og Brasilíu. Maduro fyrirskipaði því á sunnudag að 100 bólivara seðlar skyldu teknir úr umferð um skeið, en gert er ráð fyrir að það muni skapa mikið uppþot meðal landsmanna.

Stjórnvöld í Venesúela lokuðu síðast landamærum sínum í ágúst í fyrra, en opnuðu þau að nýju ári síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×