Enski boltinn

Myndbandsdómgæsla notuð í sigri Real Madrid á HM félagsliða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu sem var tekið upp á long play.
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu sem var tekið upp á long play. vísir/getty
Real Madrid er komið í úrslitaleik heimsmeistarakeppni félagsliða í fótbolta en það lagði Club América frá Mexíkó, 2-0, í undanúrslitum í dag. Mótið fer fram í Japan.

Mexikósku meistararnir voru hársbreidd frá því að komast með 0-0 stöðu inn í hálfleikinn en það tókst ekki. Karim Benzema kom Real yfir, 1-0, á annarri mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Evrópumeistararnir biðu aftur fram í uppbótartíma með að skora annað markið en það gerði Cristiano Ronaldo þegar hann slapp í gegnum vörn América og skoraði af öryggi, 2-0.

Verið er að prófa myndbandsdómgæslu á HM félagsliða að þessu sinni og fannst dómurum leiksins þetta góð stund til að athuga hvort Ronaldo hefði verið rangstæður. Hann var langt frá því að vera rangstæður og uppákoman hjá dómurunum því nokkuð kjánaleg. En vissulega gott að vita að tæknin virkar.

Real mætir japanska liðinu Kashima Antlers í úrslitaleik á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×