Gagnrýni

Að missa, gráta og sakna

Brynhildur Björnsdóttir skrifar

Bækur
Og aftur deyr hún
Ása Marín
Útgefandi: Björt
Fjöldi síðna: 119
Kápa: Vilhjálmur Warén
Prentun Prentmiðlun

Alda Hjaltadóttir er látin, langt fyrir aldur fram. Í bókinni Og aftur deyr hún fylgjumst við með sorg hennar nánustu, móður hennar, bestu vinkonu og ástmanns en fáum líka innsýn í líf eiginkonu ástmannsins og sonar hans. Saman varpa þessar fimm manneskjur ljósi á líf Öldu og dauða og hvaða áhrif andlát hennar hefur á líf þeirra sem eftir eru, jafnvel þeirra sem þekktu hana ekki neitt.

Og aftur deyr hún er stutt saga sem skiptist í stutta kafla þar sem þriðju persónu sögumenn miðla sögunni. Sjónarhornið flakkar á milli persóna sem hver þekkti í raun aðeins sinn hluta af hinni látnu og með því að leggja saman þeirra sjónarhorn fáum við lesendur mynd af manneskju sem er þó fjarri því að vera heil því enn er mörgum spurningum ósvarað um hver við erum, hver þekkir okkur, hvern þekkjum við og hvernig er okkar upplifun af okkur sjálfum og öðru fólki í samhengi við raunveruleikann, ef hann er þá til sem eitthvað áþreifanlegt og óumbreytanlegt.

Bókin snýst mikið um sorg og söknuð, ekki bara eftir þeirri sem fór og því sem hún færði þeim sem eftir lifa heldur líka eftir þeim einstaklingum sem persónurnar eitt sinn voru og þeim aðstæðum og lífi sem þær eitt sinn áttu.
Kaflarnir sem fjalla um sorgina eru best unnir í bókinni og þar fá persónurnar lit.
Persónurnar hafa allar sína breyskleika og meira gert úr því að draga þá fram heldur en kosti þeirra, nema þá helst móðurinnar og lýsingarnar á því hvernig hún þræðir jarðarfarir til að veita sorg sinni útrás eru átakanlegar. Þá eru lýsingarnar á sorg ástmannsins og hvernig hann reynir að létta á henni með því að leita til fráhverfrar eiginkonunnar einnig vel gerðar.

Í þeim köflum má sjá áhugaverða vinnslu úr persónum og tilfinningum sem alveg hefði mátt sjá víðar í bókinni því annars eru persónurnar meira eða minna huglausar og staðnaðar í frekar tilgangslausri sjálfselsku sem nær ekki alveg að fanga áhuga lesandans. Ekki einu sinni Alda, sem er örlagavaldur í lífi þeirra flestra auk þess sem líf sumra hreinlega virðist hverfast um hana, nær að vekja áhuga. Það hefði verið gaman að fá aðeins margvíðari mynd af öllum persónunum og ekki síst henni.

Sagan gerir einnig atlögu að því að vera spennusaga þar sem ýmsum þykir ólíklegt að Alda hafi í raun fyrirfarið sér og leita meðal annars svara í dagbókum hennar sem varpa reyndar ljósi á sitthvað fleira en einmitt hvort hún hafi í raun leitað hinnar endanlegu lausnar.

Og aftur deyr hún er að mörgu leyti ágætis bók sem heldur lesandanum við efnið með því að skipta ört um sjónarhorn og viðheldur áhuga á örlögum persónanna þrátt fyrir að þær sjálfar risti heldur grunnt. Það hefði þó mátt að ósekju gefa aðeins meiri tíma í að vinna með og dýpka persónurnar og söguþráðinn því það er fyllilega innistæða fyrir hvoru tveggja.

Niðurstaða: Ágætis saga, einkum kaflarnir sem fjalla um sorg og söknuð en hefði mátt vinna betur úr efniviðnum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. desember.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira