Lífið

Desemberspá Siggu Kling - Vatnsberi: Ádeilur eru yfirleitt tákn um öfundsýki

Elsku hjartans Vatnsberinn minn. Allir þínir erfiðleikar eru í óða önn að leysast, það er eins og lífskrafturinn í kringum þig sé með það alveg á hreinu að þú eigir að hafa það gott. Steinhættu að reyna að hafa það 100% því að 70-75% er alveg feikinóg.

Visst kæruleysi á eftir að gera miklu meira fyrir þig heldur en einhver prófgráða eða sigur í leið þinni í leit að frama og hamingju. Skilaboðin eru sterk, hættu að hlaupa svona hratt því þú ert hvort sem er langt á undan öllum öðrum. Þú gefur þér aldrei nógan tíma til að staldra við og sleppa tökunum á því sem að skiptir engu máli. Þú ert hörkuduglegur og kýst að vera með fólki sem hefur eitthvað að segja og gefur þér kraft, og það er bara af hinu góða.

Þú verður alltaf jafn hissa þegar manneskjur í kringum þig eru að deila á þig. Ádeilur eru yfirleitt tákn um öfundsýki og Dale Carnegie, sem skrifaði bækurnar Vinsældir og áhrif og Lífsgleði njóttu – bækur sem þú þarft að kaupa þér fyrir jólin – sagði: Það er aldrei sparkað í hundshræ.

Ef þú gerir ekki neitt og segir ekki neitt, þá hefur að sjálfsögðu enginn skoðun á þér. En þú átt það til að vera svolítil ógn, því að þú ert orðheppinn og lætur hugsanirnar oft ráða, og það er það sem gerir þig svo dásamlega skemmtilegan. Þú fæddist hérna á jörðinni til að uppfylla háleit markmið, svo að þú þarft að skoða hvað það er sem þér þykir vera háleit markmið.

Skilaboð mín til þín eru að þín háleitu markmið eru tengd nærumhverfi þínu, fjölskyldu þinni, vinum þínum og öllum þeim sem hafa mikil áhrif á þig. Leggðu þig fram um að gera eins mikið og þú getur fyrir þessar manneskjur og þitt heimili, þá mun allt hitt sem þú þráir koma af sjálfu sér.

Það er svo margt frumlegt í fari þínu og þú ert svo skapandi á margvíslegan hátt en ef þér hefur verið haldið niðri í æsku, þá getur þú stoppað þetta flæði sköpunar, sem þú svo sannarlega hefur. Því að ef þú óttast það að þú þurfir alltaf að vera til fyrirmyndar og gera allt svo fullkomið til þess að hljóta samþykki annarra, þá gerist ekkert í kringum þig. Snillingurinn í þér mun brjótast út og þú munt bæði verða skapandi og staðfastur.

Þú átt eftir að sigra margt með kímnigáfu þinni, þó að öllum þyki þú ekki endilega fyndinn.
Mottóið þitt í desember er: Ég elska mig, því þú getur skilið við maka þinn, vinnuna og landið sem þú býrð á en þú þarft alltaf að hanga með sjálfri þér. Svo ég elska mig, elska mig, elska mig.

Frægir Vatnsberar: Pacas hans Begga, Geir Sveinsson handknattleiksþjálfari, Halla himintungl, Clark Gable leikari, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúi, Yoko Ono, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Katrín Jakobsdóttir þingkona, Hilmir Snær Guðnason leikari, Rikka sjónvarpskona, María Ólafsdóttir Júróvisjónstjarna, Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kastljóss, Gunna Dís útvarpskona, Höddi Magg, Andrea Róberts mannauður, Hilmar Hafsteinsson ofurfasteignasali.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira