Gagnrýni

Hending eða hlutskipti?

Brynhildur Björnsdóttir skrifar

Bækur
Skriftir- Örlagagletta
Pétur Gunnarsson
JPV
191 bls
Kápa: Alexandra Buhl
Prentuð í Odda

Það er eitthvað við það hvernig Pétur Gunnarsson skrifar. Eitthvað við hlýjuna og kímnina í því hvernig hann sér heiminn og miðlar honum, stundum með því að skella einu myndskeiði inn í frásögn af atburðum sem skyndilega fá allt aðra vídd og lengd. Sumar setningarnar eru svo fagurmótaðar að þær ættu heima í sérprenti, svona „Gullkorn úr penna Péturs Gunnarssonar“, eða á einhverjum stað í heilanum þar sem væri auðvelt að grípa til þeirra þegar þarf að lýsa einhverju eins og best verður á kosið.

Í nýjustu bókinni Skriftir – Ör­lagagletta er hann að velta fyrir sér hvað ræður því hvernig lífið verður, hvernig það orsakaðist að hann varð að sér, hvað skapar manninn. Sem er greinilega fleira en fötin, þó öðru sé haldið fram í laginu um Sirkus Geira Smart sem varð til þegar Spilverk þjóðanna var fengið til að semja tónlistina við leikritið Grænjaxla sem Pétur skrifaði 1976 og á sinn þátt í að frasinn Fötin skapa manninn varð svo sígildur sem raun ber vitni, þó að upphaflega sé þessi frasi úr auglýsingu frá Karnabæ og kó.

Skriftir er persónuleg bók sem segir sögu þess sem ætlaði, eða langaði eða langaði ekki alltaf að verða rithöfundur. Pétur átta ára ætlaði til dæmis að verða lögfræðingur vegna þess að hann taldi að það hlyti að vera „ákaflega fróðlegt“. Bókin hefst á því þegar hann sér konuna sína í fyrsta sinn og verður ástfanginn um leið en svo fáum við forsögu piltsins sem beið eftir lyftu í Útvarpshúsinu með þessari stúlku. Lýsingin á ástinni blandast við frásagnir af árunum í MR og teygir sig svo aftur til bernskuáranna þar sem Pétur tileinkar kennaranum sínum, henni Dagnýju, heilan kafla því hún var alltaf að láta nemendur skrifa ritgerðir.

Hann skrifar um Reykjavík bernskunnar og æskunnar sem hafði allt sem til þurfti og lýsir ýmsum samferðamönnum sínum. Og atburðum, til dæmis því þegar gamall skólafélagi hans drukknar í sundlaug, atvik sem þeir ættu að kannast við sem hafa lesið fyrstu bækur Péturs. Þannig verður hver atburður hluti af því hvernig rithöfundur Pétur Gunnarsson var og er, og einnig foreldrar hans, afar og ömmur, allt sem gerist á þannig stundu að það hefur áhrif á hann, festist í minninu og verður honum til sköpunar.

Í bókinni eru myndir, bréf og dagbókarbrot úr lífi Péturs, ættingja og forfeðra, sem gera tengingar lesandans við þetta fólk skýrari og markvissari. Einkum er gaman að skoða bréf og dagbókarfærslur og spá í skriftina og skriftirnar saman.

Skriftir – örlagagletta er sagan af því hvernig fólk verður að því sem það er með öllum sínum rótum og greinum út í ýmsar áttir og vangaveltan stingur alltaf öðru hverju upp kollinum, hvað er ákveðið, hvað er hending og hvað er hlutskipti, hvað gerðist óvart og hvað er rökrétt afleiðing alls þess sem á undan kom.

Falleg og látlaus bók sem er notalegt að blaða í, staldra við og velta fyrir sér hvernig eigin saga myndi líta út og hversu mikið af eigin lífi er hending og hversu mikið hlutskipti.

Niðurstaða: Falleg og skemmtileg bók um það hvernig fólk verður að sjálfu sér.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. desember.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira