Skoðun

„Ég veit ekki hvort ég á heima hér“

Ólöf María Brynjarsdóttir skrifar
Ég settist niður í rauða sófann og sagði þetta við konuna sem sat í hægindastól á móti mér, hún brosti aðeins og sagði það vera algengt að fólk héldi þessu fram í fyrsta viðtali. Hún spurði svo til baka „hvers vegna finnst þér þú ekki eiga heima hér?“ Já hvers vegna hélt ég að ég ætti ekki heima í þessu heimilislega herbergi? Mér fannst það sem ég bjó yfir ekkert merkilegt, ég mundi það takmarkað og sennilega væri það allt saman mér að kenna. Ég væri örugglega að gera úlfalda úr mýflugu. Ég skammaðist mín og fannst ég ekki eiga rétt á samúð. Þessi góða kona gæti líka án efa varið tíma sínum mun betur í að hjálpa þeim sem virkilega þyrftu á því að halda.

Þetta voru fyrstu samræður mínar við ráðgjafann minn hjá Aflinu Akureyri. Ég kom þangað í mars 2014 til að leita mér aðstoðar eftir margra ára þögn yfir því kynferðisofbeldi sem ég hafði orðið fyrir á lífsleiðinni. Við tók margra mánaða vinna í viðtölum þar sem ég kafaði ofan í dýpstu og myrkustu staðina innra með mér. Hjá Aflinu lærði ég að það sem ég varð fyrir var ekki mér að kenna og að ofbeldið hefði mótað mig á allan hátt. En ég sat uppi með afleiðingarnar og hjá Aflinu fékk ég aðstoð til að greina þær og koma þeim frá mér. Þar var hlustað á mig og ég fann í fyrsta skipti að þarna var einhver sem skildi mig, einhver sem hafði gengið í gegnum þetta sama og komist lifandi frá því.

Afleiðingar kynferðisofbeldis eru margþættar, bæði líkamlegar og andlegar. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að konur sem sættu kynferðisofbeldi í æsku geta þjáðst af alls kyns vandamálum á fullorðinsárum. Má þar nefna meltingarfæratruflanir og sýkingar, vandamál tengd hjarta- og æðakerfi, svimi og yfirlið, brenglun á innkirtlastarfsemi, sogæðakerfisvandamál, taugaáföll og móðurlífsvandamál. Jafnframt geta andleg veikindi, líkt og þunglyndi, kvíði, áfallastreita og geðhvörf hrjáð konur sem sætt hafa kynferðisofbeldi, sem og fíkn af öllum toga. Sýnt hefur verið fram á að með úrvinnslu á ofbeldinu hafa konur náð betri líkamlegri og andlegri heilsu.

Það er mikilvægt að þau úrræði sem eru í boði séu miðuð við þarfir einstaklinga. Það hefur Aflið á Akureyri haft að leiðarljósi og býður upp á jafningjafræðslu og jafningjastuðning og þangað er frítt að leita. Ráðgjafar Aflsins hafa allir upplifað á eigin skinni hvernig það er að takast á við afleiðingar kynferðisofbeldis.

Það er sérstaklega mikilvægt að úrræði sem þessi standi fólki til boða hvar sem er á landinu, líka á landsbyggðinni. Kynferðisofbeldi á sér nefnilega stað, því miður, úti um allt.

Ég starfa í dag sem ráðgjafi hjá Aflinu og hef oft fengið að heyra „ég veit ekki hvort ég á heima hér...?“ frá þeim sem til mín leita. Til allrar hamingju get ég sagt þeim, líkt og mér var sagt vorið 2014, „jú þú átt heima hér og ég veit það því ég hef verið þar sjálf“.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×