Sport

Ronda: Ég mun hætta fljótlega

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ronda Rousey stígur í búrið á nýjan leik um áramótin og hún segir að það sé ekki hennar síðasti bardagi þó svo margir séu á því.

Ronda mun þá keppa við Amöndu Nunes sem er núverandi heimsmeistari í bantamvigt. Titill sem Ronda átti lengi og ætlar sér að fá aftur. Nunes segist ætla að rota Rondu í fyrstu lotu en Ronda hlær að því.

„Hún verður eiginlega að segja það því allir vita að hún verður bensínlaus í annarri lotu. Hún verður því að selja sjálfri sér þessa spá. Hvað annað á hún að segja við sjálfa sig?“ sagði Ronda við spjallþáttastjórnandann Conan O'Brien.

Það hefur lítið farið fyrir Rondu síðan hún tapaði fyrir Holly Holm fyrir rúmu ári síðan. Fram að því var hún út um allt. Þeir tímar eru liðnir.

„Ég þarf þess ekki. Ég hef lært mikið á þessu ári. Að öll þessi athygli og peningar skipta mig og mína hamingju ekki neinu máli. Núna er kvennadeildin komin á kortið og ég þarf því ekki að auglýsa eins mikið. Það er mitt val. Ég fæ ekkert út úr því að vera í endalausum viðtölum. Ég vil frekar spila World of Warcraft,“ sagði Ronda en hún spilar tölvuleikinn oft við Vin Diesel eins og má sjá hér að ofan.

Mikið er talað um að Ronda ætli að kveðja eftir þennan bardaga.

„Ég held ekki að ég hætti eftir þennan bardaga en ég mun klárlega hætta fljótlega.“

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×