Gagnrýni

Þegar allt var svo gott

Jónas Sen skrifar
Frá æfingu Fóstbræðra fyrir aldarafmælistónleikana.
Frá æfingu Fóstbræðra fyrir aldarafmælistónleikana. Visir/Anton Brink
Tónlist

Kórtónleikar

Blönduð efnisskrá, þ. á m. ný verk eftir Viktor Orra Árnason og Hreiðar Inga Þorsteinsson.

Einsöngvarar: Benedikt Kristjánsson, Egill Ólafsson, Jakob Frímann Magnússon og Högni Egilsson. Stjórnandi: Árni Harðarson. Aka-Hrynpiltar, Stórsveit Reykjavíkur og nokkrir hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Eldborg í Hörpu

föstudaginn 18. nóvember



Ég er með góðar fréttir og slæmar fréttir. Þær slæmu eru að ég næstum sofnaði á fyrri hluta Fóstbræðratónleikanna í Hörpu á föstudagskvöldið. Góðu fréttirnar eru hins vegar að eftir hlé voru þeir svo skemmtilegir að ég óskaði þess að þeir yrðu aldrei búnir.

Hvernig stendur á þessari ójöfnu frammistöðu? Jú, fyrir hlé var eingöngu virðuleg tónlist á boðstólum. Í seinni hálfleik var allt stuðið. Sjálfsagt var efnisskráin hugsuð til að birta þverskurð af löngu starfi kórsins. Tónleikarnir voru afmælisfögnuður; í ár eru hundrað ár síðan Fóstbræður urðu til. Þeir hafa vissulega komið nálægt hámenningunni. Söngur þeirra í Babí jar sinfóníunni eftir Sjostakóvitsj fyrir 10 árum var t.d. magnaður. En þá var líka heil sinfóníuhljómsveit sem studdi þá. Núna var meðleikurinn í höndunum á píanóleikara, nokkrum blásurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og pákuleikara. Það var óttalega flatt og litlaust.

Efnisskráin fyrir hlé samanstóð af þjóðlaginu Ár vas alda í útsetningu Jóns Þórarinssonar. Jafnframt var flutt A Stopwatch and an Ordnance Map eftir Barber og The Ballade of Little Musgrave eftir Britten. Svo litu ný verk eftir þá Viktor Orra Árnason (Var) og Hreiðar Inga Þorsteinsson (Cantico delle creature) fyrst dagsins ljós. Þetta voru býsna ólíkar tónsmíðar, en samt söng kórinn þær eins. Flest var í einhverjum máttlausum falsettustíl sem varð fljótt skelfilega tilbreytingarlaus. Kraftinn vantaði, fínlegu blæbrigðin einnig. Það var ekkert í söngnum sem gerði tónlistina áhugaverða. Maður hafði á tilfinningunni að kórinn bara rétt svo réði við viðfangsefni sitt. Megnið af púðrinu fór í að syngja hreint, ekkert var eftir fyrir túlkunina. Einsöngur Benedikts Kristjánssonar var auk þess ósköp rislítill.

Nei, þá var nú meira gaman eftir hlé. Syrpur í útsetningu Magnúsar Ingimarssonar voru dásamlegar, innlifunin fölskvalaus, fjörið allsráðandi. Ekki síðri voru Röndótta mær eftir Jakob Frímann Magnússon, Andaðu eftir Högna Egilsson, Simbi sjómaður eftir Hauk Morthens og Íslenskir karlmenn eftir Egil Ólafsson og Valgeir Guðjónsson. Þarna var Sinfóníuliðið horfið sem betur fer, í staðinn kominn rytmasveit (Aka-Hrynpiltar) og Stórsveit Reykjavíkur. Nokkrir einsöngvarar stigu á svið, þ.e. Jakob, Egill og Högni. Þeir voru stórskemmtilegir. Aka-Hrynpiltar voru líka frábærir, Stórsveitin sömuleiðis.

Lokalagið á efnisskránni var Brennið þið vitar eftir Pál Ísólfsson, en hér í nýstárlegri útfærslu. Hún var djössuð upp í millispilunum af Stórsveitinni, en kórinn söng klassískt. Útkoman var skemmtileg togstreita hins nýja og gamla sem vakti óneitanlega kátínu. Krafturinn var yfirgengilegur.

Erfitt er að lýsa hughrifunum eftir hlé. Syrpurnar, með lögum á borð við Ramónu, Ágústnótt og Vor við sæinn sköpuðu mergjaða stemningu. Það var eins og að fara í tímavél aftur um 50 ár. Maður fylltist söknuði eftir árunum í den þegar allt var svo gott! Er ekki kominn tími til að kórinn taki upp nýjan geisladisk með þessum dásamlegu lögum? Þau mega ekki gleymast.

Niðurstaða: Mjög ójöfn dagskrá, en frábær þegar best lét.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×