Sport

Fjórir íslenskir sigrar á Evrópumótinu í MMA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Magnús er kominn áfram.
Magnús er kominn áfram. mynd/facebook-síða mjölnis

Íslensku keppendurnir gerðu góða hluti á öðrum degi Evrópumótsins í MMA í Prag. Íslendingarnir unnu fjóra bardaga og töpuðu aðeins einum.

Magnús Ingi Ingvarsson, Björn Þorleifur Þorleifsson, Hrólfur Ólafsson og Egill Øydvin Hjördísarson unnu allir sinn bardaga en Bjartur Guðlaugsson tapaði sínum.

Bjartur reið á vaðið af íslensku keppendunum en hann þurfti að sætta sig við tap fyrir Daniel Schalander, hátt skrifuðum Svía, á dómaraúrskurði.

Magnús kláraði heimamanninn Tomas Fiala með tæknilegu rothöggi í 3. lotu. Hann mætir Rússanum Ziiad Sadaily í átta manna úrslitum í veltivigtinni á morgun.

Það tók Björn aðeins 53 sekúndur að sigra Tékkann Premysl Kucerka með kraftmiklum spörkum. Björn mætir Svíanum Rostem Akman á morgun í átta manna úrslitum í millivigtinni.

Hrólfur bar sigurorð af Tommi Leinonen frá Finnlandi eftir klofna dómaraákvörðun. Hrólfur mætir Austurríkismanninum Florian Aberger á morgun í millivigtinni.

Egill sigraði Bretann Navid Rostaie á dómaraúrskurði. Sú sérstaka staða er komin upp að herbergisfélagarnir Egill og Bjarni Kristjánsson eiga að mætast í átta manna úrslitum í léttþungavigtinni á morgun.

„Það kemur í ljós á eftir hvað við ætlum að gera en munum funda um það. Þeir munu þó ekki berjast en við ætlum að sjá til hvernig við gerum þetta,“ sagði Jón Viðar Arnþórsson, forseti Mjölnis, í samtali við mmafrettir.is um stöðuna sem upp er komin.

Hrólfur fagnar sigri í sínum bardaga. mynd/facebook-síða mjölnis


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira