Innlent

Bjóða upp á heimanámsaðstoð fyrir fullorðna innflytjendur: „Frábær leið til að tengjast samfélaginu betur“

Atli Ísleifsson skrifar
Kristín segir að Heilahristingur sé samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Rauða krossins og hafi verið í gangi fyrir börn og unglinga í heil átta ár.
Kristín segir að Heilahristingur sé samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Rauða krossins og hafi verið í gangi fyrir börn og unglinga í heil átta ár. Mynd/Kristín R. Vilhjálmsdóttir

„Þetta getur verið mjög góð viðbót fyrir fólk. Ekki bara upp á íslenskunámið heldur líka til að tengjast samfélaginu betur,“ segir Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnisstjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafninu, um verkefnið Heilahristing sem gengur út á aðstoð við heimanám fyrir framhaldskólanemendur og fullorðna, jafnt Íslendinga sem fólk af erlendum uppruna.

Kristín segir að Heilahristingur sé samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Rauða krossins og hafi verið í gangi fyrir börn og unglinga í heil átta ár. Nú verði hins vegar einnig boðið upp á þjónustuna fyrir framhaldsskólanemendur og fullorðna.

„Það eru mjög mörg börn og unglingar, örugglega milli fimmtíu og sextíu, sem nýta sér þessa þjónustu í hverri viku,“ segir Kristín, en boðið hefur verið upp á aðstoðina í Kringlusafni, Gerðubergi og Grófinni.

Aðstoðin fyrir fullorðna, sem nú verður hleypt af stokkunum, verður á fimmtudögum milli 16 og 18 í Grófinni. Þar munu sjálfboðaliðar Rauða krossins taka á móti þeim sem hafa áhuga. „Þarna verður setið í þessu óformlega og notalega umhverfi Borgarbókasafnsins og tækifæri fæst til að spjalla með fólk á íslensku.“

Hún segir hafa við mikla eftirspurn eftir því að boðið yrði upp á þjónustu sem þessa fyrir fullorðna. „Með þessu viljum við gefa fólki tækifæri til að tengjast, kynnast nýju fólki. Á bókasöfnunum og menningarhúsunum okkar er margt um að vera og fjölmenningarlegt starf þar sem við erum að nota menningu og listir til að tengja fólk.“

Nánar má fræðast um verkefnið á vef Borgarbókasafnsins.Fleiri fréttir

Sjá meira