Innlent

Bjóða upp á heimanámsaðstoð fyrir fullorðna innflytjendur: „Frábær leið til að tengjast samfélaginu betur“

Atli Ísleifsson skrifar
Kristín segir að Heilahristingur sé samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Rauða krossins og hafi verið í gangi fyrir börn og unglinga í heil átta ár.
Kristín segir að Heilahristingur sé samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Rauða krossins og hafi verið í gangi fyrir börn og unglinga í heil átta ár. Mynd/Kristín R. Vilhjálmsdóttir

„Þetta getur verið mjög góð viðbót fyrir fólk. Ekki bara upp á íslenskunámið heldur líka til að tengjast samfélaginu betur,“ segir Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnisstjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafninu, um verkefnið Heilahristing sem gengur út á aðstoð við heimanám fyrir framhaldskólanemendur og fullorðna, jafnt Íslendinga sem fólk af erlendum uppruna.

Kristín segir að Heilahristingur sé samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Rauða krossins og hafi verið í gangi fyrir börn og unglinga í heil átta ár. Nú verði hins vegar einnig boðið upp á þjónustuna fyrir framhaldsskólanemendur og fullorðna.

„Það eru mjög mörg börn og unglingar, örugglega milli fimmtíu og sextíu, sem nýta sér þessa þjónustu í hverri viku,“ segir Kristín, en boðið hefur verið upp á aðstoðina í Kringlusafni, Gerðubergi og Grófinni.

Aðstoðin fyrir fullorðna, sem nú verður hleypt af stokkunum, verður á fimmtudögum milli 16 og 18 í Grófinni. Þar munu sjálfboðaliðar Rauða krossins taka á móti þeim sem hafa áhuga. „Þarna verður setið í þessu óformlega og notalega umhverfi Borgarbókasafnsins og tækifæri fæst til að spjalla með fólk á íslensku.“

Hún segir hafa við mikla eftirspurn eftir því að boðið yrði upp á þjónustu sem þessa fyrir fullorðna. „Með þessu viljum við gefa fólki tækifæri til að tengjast, kynnast nýju fólki. Á bókasöfnunum og menningarhúsunum okkar er margt um að vera og fjölmenningarlegt starf þar sem við erum að nota menningu og listir til að tengja fólk.“

Nánar má fræðast um verkefnið á vef Borgarbókasafnsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.