Enski boltinn

Moses loksins kominn til fyrirheitna landsins eftir langa eyðimerkurgöngu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Victor Moses var gleymdur og grafinn í upphafi tímabils en er nú ómissandi hluti af toppliði Chelsea. Hann var frábær í stórleik helgarinnar og tryggði Chelsea afar mikilvægan sigur gegn Tottenham á laugardaginn.
Victor Moses var gleymdur og grafinn í upphafi tímabils en er nú ómissandi hluti af toppliði Chelsea. Hann var frábær í stórleik helgarinnar og tryggði Chelsea afar mikilvægan sigur gegn Tottenham á laugardaginn. vísir/getty
Hinn 25 ára gamli Victor Moses skaut Chelsea á topp ensku Úrvalsdeildarinnar um helgina þegar hann skoraði sigurmarkið í stórleik helgarinnar gegn Tott­enham. Fátt virðist geta stoppað sigurgöngu Chelsea sem hófst þegar Antonio Conte skipti yfir í 3-4-3. Þar leikur Moses lykilhlutverk sem hægri vængbakvörður. Hann vakti snemma athygli en líkt og margir knattspyrnumenn sem ganga til liðs við stórlið á unga aldri hefur hann átt erfitt uppdráttar. Þangað til nú.

Afdrifaríkt klúður

Moses var ein af vonarstjörnum enska boltans þegar hann kom fram á sjónarsviðið hjá Crystal Palace árið 2007, aðeins 16 ára gamall. Margir leikmenn á hans aldri brenna sig á því að ganga of snemma til liðs við stóru félögin þar sem þeir verða undir í samkeppni við dýrari og hæfileikaríkari leikmenn. Moses virtist því stíga rétt skref þegar hann gekk til liðs við Wigan árið 2010. Þar fékk hann sín fyrstu tækifæri í Úrvalsdeildinni og nýtti þau vel, svo vel að árið 2012 keypti Chelsea hann eftir mikinn eltingarleik.

Fyrsta tímabilið gekk vel en eftir að José Mourinho tók við Chelsea 2013 var Moses sendur á láni til Liverpool, Stoke og West Ham án árangurs. Var hann helst þekktur fyrir að vera maðurinn sem mistókst að tryggja Liverpool sigurinn á lokamínútunum í afdrifaríku 3-3 jafntefli liðsins gegn Crystal Palace sem margir telja að hafa kostað Liverpool titilinn árið 2014.

Antonio Conte ber tilfinningar sínar á borð.vísir/getty
Gleymdur og grafinn

Það var því allt eins líklegt að Moses myndi hverfa í eilífðina sem einn af þessum ungu leikmönnum sem lofa góðu en lítið verður úr. Fátt gaf til kynna að það myndi breytast með komu Antonio Conte til Chelsea en í fyrstu fimm leikjum tímabilsins fékk Moses afar takmarkaðan spilatíma. Eftir að liðið brotlenti illa gegn Liverpool og Arsenal í upphafi tímabils þurfti Conte hins vegar að bregðast við til að snúa genginu við.

Svar hans var að leita aftur á náðir 3-4-3 leikkerfisins sem Conte nýtti óspart með Juventus og Ítalíu. Þar kom Moses inn í hægri vængbakvarðarstöðuna. Það er ekki fyrir hvern sem er að leysa slíka stöðu enda þarf sá hinn sami að vera í gríðarlegu formi til þess að geta sinnt varnar- og sóknarhlutverkinu sem fylgir því að sjá einn um annan kantinn. Moses virðist smellpassa í þetta hlutverk.

Sem sóknarsinnaður kantmaður að upplagi nýtast kraftar hans vel á fram á við. Sigurmarkið gegn Tottenham var fjórða mark hans á tímabilinu og aðeins helstu stjörnur Chelsea, Eden Hazard og Diego Costa, hafa skorað fleiri mörk á tímabilinu.

Skiptingin í 3-4-3 hefur umbreytt leik Chelsea og galdrað fram það besta í Hazard og Costa. Sjö leikja sigurhrina Chelsea hefur skotið þeim á toppinn og allt þetta væri vart mögulegt án Moses og Marcos Alonso í vængbakvarðarstöðunum. Þeir losa um sköpunargáfu Hazard, Pedro og Costa í framlínustöðunni með því að frelsa þá undan varnarskyldum sínum en styðja jafnframt við bakið á sóknarleiknum líkt og markaskorun Moses gefur til kynna.

„Moses býr yfir miklum hæfileikum, hann er tæknilega góður, nautsterkur og getur séð um 70 metra á vellinum einn síns liðs,“ sagði Conte eftir sigur Chelsea gegn Middlesbrough um þar síðustu helgi þar sem Moses var valinn maður leiksins. „Það er kostulegt að leikmaður eins og hann hafi verið svona vanmetinn.“

Moses hefur blómstrað í stöðu vængbakvarðar.vísir/getty
Með Conte í eyranu

Agi hans og vinnusemi bætir einnig upp það sem á vantar í varnarleiknum, fáir leikmenn Chelsea hlaupa jafn mikið og Moses í hverjum leik auk þess sem það hjálpar að hafa vélar á borð við Nemanja Matic, N’Golo Kanté og Cesar Azpilicueta sér við hlið. Þar að auki fer mikill hluti af leik Moses fram við hliðarlínuna og í minnst 45 mínútur í hverjum leik hefur hann Conte í eyranu gargandi leiðbeiningar á sig.

„Ég er búinn að finna heimili mitt,“ sagði Moses eftir leikinn gegn Tottenham eftir að hafa verið valinn maður leiksins, annan leikinn í röð. „Stjórinn gaf mér tækifæri til þess að tjá mig og ég nýt þess í botn. Ég vil bara fá að spila fótbolta og njóta mín þegar ég er úti á vellinum.“

Eftir strembin ár virðist Moses því loksins vera kominn á fast land. Sjálfur virðist hann bara ætla að njóta augnabliksins, loksins orðinn lykilmaður í hungruðu liði Chelsea sem stefnir hraðbyri að titlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×