Enski boltinn

Sir Alex opnar sig um hárþurrkuna: „Ég stjórnaði ekki með ótta“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Leikmenn og dómarar fengu veðurfréttirnar beint í grillið í 27 ár.
Leikmenn og dómarar fengu veðurfréttirnar beint í grillið í 27 ár. vísir/getty
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, segist ekki hafa stýrt hlutunum á Old Trafford með ótta þau 27 ár sem hann var við stjórnvölinn hjá félaginu. Þá segir hann sögurnar af hinni frægu hárþurrku stórlega ýktar.

Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, segir í ævisögu sinni að það sé ekkert verra en að fá hárþurrkuna frá Sir Alex. Það er þegar Skotinn lét menn heyra það af stuttu færi í búningsklefanum eða á æfingasvæðinu.

Ferguson var spurður út í hárþurrkuna á viðskiptaráðstefnu í Mílanó þar sem Skotinn sagðist alltaf hafa haft það að markmiði að fá eitthvað jákvætt út úr leikmönnum sínum.

„Hárþurrkan er orðin mikil goðsögn. Ég notaði hana svona sex sinnum á 27 árum og leikmennirnir munu votta það. Það sem mér fannst verst var ef leikmennirnir svöruðu mér. Þá gekk ég að þeim. Það var mitt vandamál,“ segir Ferguson.

„Jock Stein [Skoskur leikmaður og síðar þjálfari] sagði mér alltaf að bíða með að tala við leikmennina þar til á mánudegi eftir leik. Ég gat aldrei beðið til mánudags þannig á laugardegi, beint eftir leik, sagði ég öllum nákvæmlega hvað mér fannst. Mér fannst við eiga að vinna alla leiki miðað við vinnuna sem við lögðum í þetta.“

„Ég sagði þeim sannleikann og sannleikurinn virkar. Allir leikmennirnir skildu þetta og enginn var ósáttur við mig. Daginn eftir var þetta gleymt og grafið og ég var tilbúinn til að vinna leiki aftur. Ég stjórnaði aldrei með ótta.“

„Nefnið Manchester United lið sem spilaði hrætt. Mitt starf var að fá bestu svörin út úr liðinu og fá leikmennina til að tjá sig á vellinum og njóta þess að spila fyrir félagið,“ segir Sir Alex Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×