Körfubolti

Costa og Senegalarnir látnir fara frá Stólunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Costa stýrði Stólunum í síðasta sinn er liðið rúllaði yfir Snæfell á fimmtudaginn.
Costa stýrði Stólunum í síðasta sinn er liðið rúllaði yfir Snæfell á fimmtudaginn. vísir/ernir
Jose Maria Costa hefur verið látinn taka pokann sinn sem þjálfari Tindastóls í Domino's deild karla í körfubolta. Þá hafa Senegalarnir tveir hjá félaginu, Mamadou Samb og Pape Seck, verið sendir heim. Þetta kemur fram á Feykir.is.

Israel Martin er tekinn við sem aðalþjálfari Tindastóls en hann stýrði sinni fyrstu æfingu í kvöld.

Martin stýrði Stólunum með góðum árangri tímabilið 2014-15 og kom svo aftur á Krókinn í sumar og gerðist aðstoðarþjálfari Costa.

Til að fylla skarð Senegalanna hefur Tindastóll samið við Bandaríkjamanninn Antonio Kurtis Hester. Hann kemur til landsins í nótt.

Hester átti að koma til Tindastóls í sumar en félagið ákvað frekar að veðja á Samb sem stóð síðan ekki undir væntingum. Hester er rétt tæplega tveggja metra hár kraftframherji.

Tindastóll er í 4. sæti Domino's deildarinnar með átta stig eftir sex umferðir. Næsti leikur liðsins er gegn Stjörnunni á fimmtudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×