Bakþankar
Jóna Hrönn Bolladóttir.

Lífið er tengsl

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar

Einhvern tíma skömmu fyrir jól, þegar faðir minn var ungur prestur og barnakarl norður í Laufási við Eyjafjörð, skrapp hann í útréttingar til Akureyrar. Þá tók hann þá skyndiákvörðun að hann gekk inn í skartgripaverslun Sigtryggs og Péturs og festi kaup á eyrnalokkum handa mömmu minni að færa henni í jólagjöf. Hann gekk út með gjöfina í vasanum og hjartslátt fyrir brjóstinu enda vissi hann að það stóð illa á fyrir þessi jól og nú hafði hann ráðstafað meiru en hann réði við.

Er hann gekk inn Hafnarstrætið mætti hann Hólmgrími bónda í Ystuvík. Og sem þeir hafa heilsast segir Hólmgrímur: Bolli minn, þú ert með stórt og gestkvæmt heimili og mig langar til að mega létta aðeins undir fyrir þessi jól. Með þeim orðum rétti hann pabba lokað umslag. Föður mínum brá í brún en vissi að ekki tjáði að mótmæla sveitarhöfðingjanum Hólmgrími, svo hann tók við gjöfinni. Er heim var komið og umslagið opnað lá þar upphæð sem samsvaraði eyrnalokkunum. Þessi óvænta velgjörð bóndans í Ystuvík og vitundin um að eiga nágranna sem hugsaði svona hlýtt til fjölskyldu hans bjó alltaf með föður mínum.

Nú nálgast aðventan, þessi myrki og mikilvægi tími þegar við göngum í sjálf okkur og horfum um leið út fyrir eigin persónu. Aðventa og jól eru tengslahátíð og við vitum að gefandi og uppbyggjandi tengsl auka öryggi og gleði í samfélaginu. Ef þú veist um þrengingar sem þú ert fær um að milda þá hvet ég þig til að finna leið til að gera það, annað hvort með beinum hætti eins og Hólmgrímur bóndi eða í gegnum hjálparstofnanir. Inntak sjálfs lífsins eru tengsl. Tengsl snúast um það að gefa og þiggja. Þess vegna er sá sæll sem kann hvort tveggja.
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira