Sport

Segir Mayweather ekki þora í alvöru bardaga og vill 100 milljónir dala fyrir að boxa við hann

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Conor McGregor, tvöfaldur heimsmeistari í UFC, vill 100 milljónir dala í reiðufé fyrir að boxa við besta hnefaleikakappa sögunnar, Floyd Mayweather Jr. Hann segir Mayweather hræddan við „alvöru bardaga“.

Sögusagnir um mögulegan ofurbardaga tveggja kjaftforustu og bestu manna sinna íþrótta voru háværar fyrr á árinu en svo virtist sem hugmyndin væri dauð og grafin. Conor kveikti aftur á móti eld undir henni á þriðjudagskvöldið.

Írski Íslandsvinurinn, sem er enn að fagna sigrinum á Eddie Alvarez, fór upp á svið á næturklúbbnum Oak í New York og sagði fólkinu í salnum hvað þyrfti til ef hann ætti að berjast við Floyd Mayweather sem er 49-0 á ferlinum og af flestum talinn besti boxari sögunnar, pund fyrir pund.

„Floyd er ekki tilbúinn í þetta,“ hrópaði Conor í hljóðnemann er tónlistin var stöðvuð svo vélbyssukjafturinn gæti komist að.

„Ég virði Floyd mikið. Hann er góður viðskiptamaður og algjört dýr í því sem hann gerir. En þegar kemur að alvöru bardaga [MMA en ekki hnefaleikum, innsk. blm.] vill Floyd ekkert með það hafa.“

„Hann vill hnefaleikabardaga en ekki alvöru bardaga. Ég vil 100 milljónir í reiðufé ef ég á að berjast við hann undir hnefaleikareglum. Hann er hræddur við alvöru bardaga,“ sagði Conor McGregor.

Ræða Conors náðist á myndband sem slúðurvefurinn TMZ birti á Youtube-síðu sinni en það má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Sjáðu rothöggið hjá Conor | Myndband

Conor McGregor braut blað í sögu UFC í nótt þegar hann varð meistari í léttvigt eftir sigur á Eddie Alvarez á UFC 205 í Madison Square Garden í New York.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira