Körfubolti

Friðrik Ingi þjálfar 18 ára landslið karla og Einar Árni er yfirþjálfari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson.
Friðrik Ingi Rúnarsson. Vísir/Valli
Körfuknattleikssamband Íslands hefur ráðið þjálfara fyrir yngri landsliðin sín á næsta ári en framundan er stærsta landsliðssumar í sögu KKÍ. Friðrik Ingi Rúnarsson tekur aftur við átján ára landsliði karla átján árum eftir að hann þjálfaði liðið síðast.

Liðin sex sem eru komin með þjálfara og aðstoðarþjálfara taka öll þátt í verkefnum í sumar en framundan er risastórt landsliðssumar þar sem lið í U15, U16, U18 og U20 í flokki drengja og stúlkna verða öll í verkefnum erlendis.

Einar Árni Jóhannsson er yfirþjálfari yngri landsliða KKÍ og verður hann öllum þjálfurum innan handar en hann hefur yfirumsjón með undirbúningi liðanna. Æfingahópar liðanna verða valdir í lok nóvember og síðan munu öll liðin æfa milli jóla og nýárs í ár, þrjá daga hvert, á tímabilinu 27.-30. desember.

Mikla athygli vekur að Friðrik Ingi Rúnarsson, fyrrum A-landsliðsþjálfari, snýr nú aftur inn í landsliðsstarf KKÍ. Hann mun taka við 18 ára landsliðinu en aðstoðarþjálfari hans verður Lárus Jónsson.

Friðrik Ingi var síðast með landslið þegar hann var aðstoðarmaður Sigurðar Ingimundarsonar frá 2006 til 2007 en Friðrik Ingi var sjálfur A-landsliðsþjálfari frá 1999 til 2003.

Friðrik Ingi þjálfaði síðast 18 ára landsliðið sumarið 1999 en í því liði voru kappar eins og Örlygur Sturluson, Logi Gunnarsson, Magnús Þór Gunnarsson, Magni Hafsteinsson og Jón Norðdal Hafsteinsson. Friðrik Ingi er nú að fara að stýra strákum sem fæddust um það leiti þegar hann var síðast með 18 ára landsliðið.

Hér fyrir neðan eru þeir þjálfarar sem þjálfa U15, U16 og U18 landslið drengja og stúlkna í ár. KKÍ mun síðan á næstu dögum kynna þjálfara U20 liðanna sem og Afreksbúðaþjálfarar (undanfara U15 2018).

Landsliðsþjálfarar yngri liða KKÍ 2017

U18 kvenna Finnur Jónsson og aðstoðarþjálfari er Sævaldur Bjarnason.

U18 karla Friðrik Ingi Rúnarsson og aðstoðarþjálfari er Lárus Jónsson.

U16 stúlkna Daníel Guðmundsson og aðstoðarþjálfari er Kristjana Eir Jónsdóttir.

U16 drengja Viðar Hafsteinsson og aðstoðarþjálfari er Skúli Ingibergur Þórarinsson.

U15 stúlkna Árni Þór Hilmarsson og aðstoðarþjálfari er Hildur Sigurðardóttir.

U15 drengja Ágúst S. Björgvinsson og aðstoðarþjálfari er Snorri Örn Arnaldsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×