Innlent

Suður­lands­vegur lokaður vestan Hellu vegna um­ferðar­slyss

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Slysið varð vestan Hellu við Rauðalæk.
Slysið varð vestan Hellu við Rauðalæk. Kort/Loftmyndir.is
Suðurlandsvegi hefur verið lokað við Rauðalæk vestan Hellu vegna umferðarslyss klukkan hálf ellefu í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi varð tveggja bíla árekstur og heldur lögreglan á Hvolsvelli utan um málið.



Tveir sjúkrabílar og tækjabíll slökkviliðs voru sendir á vettvang en maður mun vera fastur í öðrum bílanna. Rannsóknarlögreglumenn frá Selfossi eru sömuleiðis á leiðinni á slysstað.

Uppfært 11:13:

Verið er að flytja slasaða á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, þar sem ákvörðun verður tekin hvort viðkomandi verði fluttur áfram til Reykjavíkur.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur ekki verið óskað eftir aðstoð þyrlu.

Uppfært 11:50:

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi rákust tveir bílar saman sem komu úr gagnstæðri átt. Einn var fluttur með sjúkrabíl, en hann ku ekki vera í lífshættu.

Uppfært 11:51:

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi sem barst 11:46 segir að umferð sé beint um hjáleið, eða um Landveg (26) og Árbæjarveg (271). Ekki er vitað að svo stöddu hvað lokunin varir lengi.

Uppfært klukkan 13:30

Opnað hefur verið fyrir umferð um Suðurlandsveg á nýjan leik.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×