Skoðun

Í orði en ekki á borði?

Fríða Björk Ingvarsdóttir skrifar
Málefni háskólastigsins hafa farið fram af sívaxandi þunga nú í aðdraganda kosninga undir yfirskriftinni „Háskólar í hættu“. Þar kemur m.a. fram að fjármálaáætlun hins opinbera fyrir árin 2017 til 2021 gerir ráð fyrir útgjaldaaukningu til uppbyggingar ýmissa innviða samfélagsins en háskólastigið situr þar eftir. Þetta gerist þrátt fyrir að búið sé að gera stjórnvöldum skýra grein fyrir því að háskólarnir séu verulega undirfjármagnaðir. Listaháskóli Íslands, sem er einn í forsvari fyrir víðfeðmt fræðasvið lista, stendur þar verst að vígi.

Húsnæðismál Listaháskólans hafa frá stofnun hans verið í ólestri, sem eftir því sem árin líða verður sífellt erfiðara að búa við. Engin meginbygginga skólans er hönnuð fyrir skólastarf. Í tveimur byggingum af fjórum er aðgengi fatlaðra ekkert eða mjög takmarkað. Viðhald er flókið enda ávallt hugsað til bráðabirgða, húsbúnaður er áratuga gamall samtíningur, þrengslin eru gríðarleg, vinnustöðvar ófullnægjandi og hvergi eru fullbúnir fyrirlestrarsalir eða annað það sem háskólastarf krefst og telst sjálfsagt í nútímanum. Fyrir þetta slæma húsnæði og afleitan aðbúnað greiðir Listaháskólinn hærra hlutfall af gjöldum sínum en nokkur annar háskóli í landinu, eða yfir 20 prósent. Í samfélagi sem telur menninguna eina af sínum helstu auðlindum, í orði ef ekki á borði, er ekki lengur hægt að horfa fram hjá þessari staðreynd og þeirri vanvirðingu sem fræðasviði lista er sýnt með slíku aðstöðuleysi til tveggja áratuga.

Njóti sannmælis og jafnræðis

Það sama á við um aðstöðumun er lýtur að rannsóknarframlögum. Rannsóknir eru sá þáttur háskólastarfs sem styður kennslu, nýsköpun og nauðsynlegar framfarir í öllu háskólakerfinu. Hlutfall rannsókna af heildarframlagi háskóla á fjárlögum ársins 2016 var hæst 40,8%, en næstlægst 19,3%. Lægsta framlagið fékk Listaháskóli Íslands; 8,6%, eða rétt rúmlega þriðjung þess næst lægsta. Á meðan þetta viðhorf til fræðasviðs lista er við lýði er ekki einu sinni hægt að framkvæma grunnrannsóknir á hönnunar- og listarfleifð þjóðarinnar – hvað þá listrannsóknir á borð við þær sem t.d. önnur norræn ríki telja nauðsynlegar. Á Íslandi eru því ómetanleg menningarverðmæti á sviði lista einfaldlega að glatast og munu aldrei verða afturkræf komandi kynslóðum til handa, ef ekki er brugðist við strax.

Þrátt fyrir ögranir og ófullnægjandi fjármögnun er Listaháskóli Íslands eftirsóttur samstarfsaðili innan lands sem utan. Akademískur styrkur og viðurkennd gæði starfseminnar munu þó aldrei nýtast sem skyldi því samfélagi sem Listaháskólinn þjónar á meðan fjármögnun og ytri aðbúnaður er svona lélegur. Það er löngu tímabært að Listaháskólinn njóti sannmælis og nemendur hans jafnræðis á við önnur fræðasvið í íslensku háskólaumhverfi.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×